Ársskýrsla Fræðslunefndar 2021-2022
Hlutverk fræðslunefndar er að leitast við að fræða félagskonur um ýmislegt sem kemur að gagni, fræðsla sem tekur mið af umræðu í samfélaginu og því sem er efst á baugi. Helstu verkefni er reglubundin nýliðamóttaka þar sem lögð er áhersla á fræðslu um starfssemi FKA, helstu viðburði og tengslamyndun nýliða of síliða.
Línurnar lagðar með könnun.
Gerð var könnun meðal félagskvenna í upphafi starfsárs sem fræðslunefnd rýndi og vann útfrá til að skipuleggja starfsárið. Nefndin vildi tryggja að fræðslan ætti erindi og væri upplýsandi og áhugaverð fyrir félagskonur vítt og breytt um landið.
Fræðslunefnd FKA stendur fyrir nýliðamóttöku.
Fræðslunefnd FKA stendur fyrir nýliðamóttöku á hverju starfsári sem er haldin fyrir allar nýjar félagskonur og einnig þær sem hafa verið í félaginu í einhvern tíma en ennþá ekki tekið virkan þátt í félagsstarfinu. FKA LEIÐIR ÞIG er nýliðafræðsla, stuðningur og tengslanet sem aðstoðar félagskonur að fóta sig innan FKA. Nýliðamóttaka FKA var haldin fimmtudaginn 4. nóvember 2021 hjá RB, Höfðatorgi Reykjavik. Nýliðamóttakan var vel sótt og Reiknistofu bankanna þakkað fyrir móttökurnar og Te og Kaffi fyrir frumsýninguna á jólakaffiblöndunni þetta árið, kaffið sem félagskonur fengu með sér heim. Salakynni RB voru full af fjöri en vegna heimsfaraldurs var þó nokkuð um afbókanir vegna hópsmits sem kom fyrr um daginn á Akranesi og gátu félagskonur þá fylgst með dagskrá í gegnum Facebooksíðu félagsins sem kemur sér alltaf vel þegar konur eiga ekki heimangengt.

Fróðlegt og nærandi erindi félagkonunnar Önnu Steinsen í boði Fræðslunefndar FKA.
,,Samskipti á vinnustað – menning, frábær liðsheild, gleði og viðhorf,” var yfirskrift morgunfundar Fræðslunefndar FKA í Hús atvinnulífsins, Borgartúni. Um var að ræða fróðlegt og nærandi erindi félagkonunnar Önnu Steinsen í boði nefndarinnar. Anna, sem er félagskona og eigandi KVAN, fjallaði um samskipti á vinnustað og gaf okkur góð ráð. Félagskonur sameinuðust yfir góðum morgunbolla og vörðu tíma saman. Streymi var á lokaðri síðu félagskvenna á Facebook sem konur geta nýtt sér og horft og/eða hlustað þegar hentar. Sérstakar þakkir fá Bananar ehf. fyrir fjörefni í formi ávaxta sem fór morgunfundinum vel.

Nýliðamóttaka FKA á Zoom – nýliðafræðsla, stuðningur og tengslanet fyrir síliða og nýliða.
Seinni Nýliðamóttaka Fræðslunefndar FKA var haldin á Zoom 10. febrúar 2022. Landsbyggðadeildir FKA eru að springa út og tæknin gefur okkur tækifæri til að tengjast um landið allt, eykur aðgengi að fræðslu sem fer vel við nýja tíma og er í takt við sóttvarnarreglur á tímum heimsfaraldurs sem litaði starfsárið. Að félagskonur sitji allar við sama skjáinn, við sama borð á nýliðamóttöku á netinu er líka jákvæð nálgun á rafræna fundi. Zoom hlekkur var sendur á skráðar konur og Guðlaug Hrönn formaður Fræðslunefndarinnar stýrði. Þrjár frábærar FKA konur, þær Hanna Guðlaugsdóttir, Grace Achieng og Anna Björk Árnadóttir deildu með okkur FKA sögunni sinni og hvernig félagið og félagskonur hafa hjálpað þeim á sinni vegferð. Þrjár magnaðar sögur og mjög ólíkar en gáfu ótrúlega góða innsýn í það hvernig FKA nýtist sem stuðningur og hvatning. Þeim stöllum eru færðar miklar þakkir fyrir sitt innlegg, sem og Rakel Lind Hauksdóttur, sem sá til þess að Zoom tengslamyndun í rafrænum herbergjum gengi vel fyrir sig.

„Ertu með rétt skilaboð á réttum tíma fyrir réttan markhóp?” var inntak fyrirlestrar Örnu Þorsteinsdóttur.
Samspil heimasíðu, samfélagsmiðla og samnýting markaðsefnis var meðal þess sem Arna Þorsteinsdóttir fjallaði um í mjög fróðlegum fyrirlestri sem fór fram á Zoom fimmtudaginn 28. apríl. Arna er félagskona í FKA og meðeigandi í auglýsingastofunni Sahara ehf. Farið var vítt og breitt yfir sviðið þegar kemur að því að setja rétt efni fram á réttum stöðum, hvað ber að varast og hvernig er gott fyrir fyrirtæki að skilgreina sig og velja sér miðla fremur en að reyna að vera sýnileg alls staðar.

Í framhaldi af þessum fyrirlestri varð til Facebook hópurinn „Konur eru (VEF)konum bestar” þar sem félagskonur geta leitað ráða og álits hverrar annarrar á sínum heimasíðum og samfélagsmiðlum. Zoom fyrirlestur Örnu er enn aðgengilegur í lokuðum hópi FKA kvenna.
Stjórn Fræðslunefndar FKA 2021-2022
Bára Sigurðardóttir
Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir
Íris Eva Gísladóttir
Jóhanna Jónsdóttir
Rósa Viggósdóttir
Alfa Jóhannsdóttir átti sæti í stjórn nefndarinnar um tíma þetta starfsárið en sagði sig úr stjórn.

#FKA #FKAkonur #Hreyfiafl #Sýnileiki #Tengslanet #FræðslunefndFKA @Bára Sigurðardóttir @Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir @Íris Eva Gísladóttir @Jóhanna Jónsdóttir @Rósa Viggósdóttir