Bréf frá formanni FKA október 2013

Sælar kæru FKA konur.


Nú er haustið komið með fallegum stillum og litadýrð. Hjá okkur í FKA er allt komið á fullt og dagskrá vetrarins orðin fjölbreytt og áhugaverð.

Nokkur stór verkefni eru í undirbúningi sem mig langar að kynna fyrir ykkur.

Atvinnurekendadeild – stofnfundur í lok mánaðar 

Á aðalfundi félagsins var lögð inn beiðni um stofnun atvinnurekendadeildar og var sú beiðni samþykkt af stjórn FKA að uppfylltum skilyrðum laga félagsins: http://www.fka.is/um/log/nr/9. Við hvetjum þær sem hafa áhuga á að taka þátt í þeirri uppbyggingu, leggja hönd á plóg eða styðja stofnun deildarinnar að mæta á stofnfundinn miðvikudaginn 30. okt, kl. 12:00-14:00. IET skrifstofan, Aðalstræti 11, 6 hæð. Skráning er æskileg en ekki nauðsynleg.

FKA Verðlaunaafhending í janúar 2014

Í ár ákvað stjórn að breyta fyrirkomulagi við undirbúning verðlauna og stofna dómnefnd. Þar fáum við til liðs við okkur fulltrúa úr Íslensku atvinnulífi en notum einnig mannauð og reynslu innan FKA.

Tilgangur dómnefndar er að yfirfara tilnefningar, koma með fleiri hugmyndir ef þurfa þykir og taka endanlega ákvörðun um viðurkenningarhafa árið 2014.

Það er okkur því sönn ánægja að kynna til leiks nýja 7 manna dómnefnd fyrir verðlauna afhendinguna í janúar 2014:

  • Ása Karín Hólm, partner Capacent Gallup (Stjórn LeiðtogaAuðar/deild innan FKA) 
  • Katrín S. Óladóttir, eigandi Hagvangur – formaður dómnefndar (fyrrum formaður FKA)
  • Marín Magnúsdóttir, eigandi Practical (Stjórn FKA)
  • Páll Harðarson, Kauphöll Íslands Nasdaq OMX Rúna Magnúsdóttir, eigandi BrandIt (Stjórn FKA)
  • Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtök atvinnulífsins (SA)
  • Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins 

Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri FKA vinnur með dómnefndinni.

Á næstunni munum við senda ykkur póst þar sem við óskum eftir tilnefningum frá ykkur í púkkið og því ekki seinna vænna að leggja höfuðið í bleyti og skrá hjá sér konur í atvinnulífinu sem eiga skilið að fá eina af eftirfarandi viðurkenningum:

FKA viðurkenningin 

Viðurkenningin er veitt fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd.

FKA þakkarviðurkenningin 
Þakkarviðurkenningin er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu.

FKA hvatningarviðurkenningin
Hvatningarviðurkenningin er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði.

Fjölmiðlaverkefni FKA 

Fjölmiðlaverkefni FKA sem kynnt var á aðalfundi í vor er verkefni spratt uppúr umræðum og hugmyndum hjá Viðskipta og Fræðslunefndar síðast liðið vor. Markmið verkefnisins að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum. Í verkefninu verður lögð áhersla á að koma konum í atvinnulífinu á framfæri í fjölmiðlum og aðstoða þær (þjálfa, hvetja, kenna o.s.frv.). Um leið viljum við birta tölulegar staðreyndir og mæla árangur vinnu okkar.

Leitast verður eftir því að sækja um styrki fyrir verkefnið og verið er að finna samstarfsfleti með rannsóknaraðilum, fyrirtækjum og háskólasamfélaginu í þeim efnum. Fyrirhugaðir eru reglulegir viðburðir í tengslum við verkefnið og verður fyrsti viðburðurinn í byrjun nóvember.

Verkefnahópur hefur verið skipaður til 4 ára og í honum eru Íris Gunnarsdóttir, Helga Margrét Reykdal, Hildur Petersen, Hulda Bjarnadóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, María Anna Clausen og Rakel Sveinsdóttir.

Eins og ávallt er spennandi vetur framundan. Nefndir og stjórn hafa unnið hörðum höndum að því að koma sama fjölbreyttri dagskrá. En mikilvægast er að FKA konur taki virkan þátt í starfinu og nýti þá fjölbreyttu dagskrá sem í boði verður eftir hentugleik hverrar og einnar svo ég tali nú ekki um tengslanetið sem félagið býður uppá.

Hlakka til að sjá ykkur í vetur

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Formaður FKA.