Fjölmiðladagur FKA – 21. feb


FKA hvetur fjölmiðla til að jafna kynjahlutfallið

  • Kynjahlutfall viðmælenda skráð í fjölda þátta og miðla

„Áþreifanleg breyting til hins betra hefur orðið á viðhorfi fjölmiðla gagnvart því að skrá kynjahlutfall viðmælenda sinna,“ segir Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA. Allt frá árinu 2013 hefur félagið barist fyrir aukinni ásýnd kvenna í fjölmiðlum.

„Við sjáum að barátta síðustu ára hefur skilað því að fjölmiðlar huga betur að þessum málum en áður. Ekki aðeins mælir RÚV kynjahlutfall í öllum sínum fréttum og fréttatengdu þáttum, heldur hafa þó nokkrir einkareknir miðlar einnig hafið skráningu á þáttum sínum,“ segir Rakel.

Hún nefnir sem dæmi að útvarpsþættirnir Magasínið á K100, Bítið á Bylgjunni og Reykjavík síðdegis skrái kynjahlutfall viðmælenda. „Við hvetjum þessa þáttastjórnendur áfram og einnig til að birta tölur sínar opinberlega,“ segir Rakel og hvetur einnig þá miðla og þáttastjórnendur sem enn láta hjá líða að taka afstöðu til málsins að gera það og skrá hlutfallið.

Rakel bendir á að staðan sé til eftirbreytni hjá RÚV og fagnar ítarlegu bókhaldi og mælingum miðilsins sem séu reglulega gerðar opinberar. Samkvæmt þeim voru í fyrra 47% viðmælenda Rásar 1 karlar og 53% konur. Á Rás 2 voru 54% viðmælenda karlar og 46% konur. Í fréttum voru karlar 63% viðmælenda en konur 37%.

„Þessar tölur í almennri dagskrárgerð eru til fyrirmyndar og sýna hvaða árangri er hægt að ná á stuttum tíma,“ segir Rakel og þótt enn halli á konur í fréttum, miði í rétta átt. „Við viljum sjá einkarekna miðla feta í fótspor RÚV á þann hátt að þeir setji sér opinber markmið um að jafna sýnileika kynja í miðlum sínum og birti niðurstöðurnar,“ segir Rakel.

Félag kvenna í atvinnulífinu stendur fyrir Fjölmiðladegi FKA í dag, 21. febrúar. Félagið hefur haldið daginn reglulega frá árinu 2013 með það að markmiði að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlum. Í tilefni dagsins hefur FKA sent áskorun til fjölmiðla að jafna kynjahlutföllin í 50/50.

 

Nánari upplýsingar:

Rakel Sveinsdóttir, formaður stjórnar FKA, s. 8220866