FKA fjölmiðlaþjálfun 2020 í húsakynnum RÚV Efstaleiti 1

FKA og RÚV hleyptu fyrr á árinu af stokkunum verkefni til þriggja ára sem ætlað er að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum. Verkefninu er um leið ætlað að bæta aðgengi fjölmiðlafólks að konum með sérþekkingu sem algengt er að skorti þegar leitað er að viðmælendum í fréttir og fréttatengda þætti.

Auk RÚV og FKA kemur starfsfólk Stöðvar 2 og Hringbrautar að framtakinu að þessu sinni og stendur að eins dags hagnýtri þjálfun laugardaginn 8. febrúar 2020 í húsakynnum RÚV í Efstaleiti 1.

Þátttakendur fá þar leiðsögn reynds fjölmiðlafólks og tækifæri til að spreyta sig sem viðmælendur við raunverulegar aðstæður í útvarpi og sjónvarpi. Þátttakendur læra m.a. um framkomu í fjölmiðlum, fá undirbúning fyrir viðtöl, setja sig í spor fréttamannsins og fara í viðtöl í stúdíóum RÚV.

Leiðbeinendur eru Þórhallur Gunnarsson, fjölmiðlamaður og Andrés Jónsson almannatengill. Einnig koma Sirrý Arnardóttir stjórnendaþjálfari, háskólakennari, rithöfundur og fyrrverandi fjölmiðlakona og Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, sjónvarpskona hjá Stöð 2, ástríðukokkur og bókaútgefandi að þjálfuninni. Þátttakendur fá einnig tækifæri til að hitta og spjalla við Bergstein Sigurðsson og Huldu Geirsdóttur, fjölmiðlafólk á RÚV.

FKA gerði könnun meðal frétta- og dagskrárgerðarmanna í fréttatengdum þáttum á ljósvakamiðlum RÚV, Stöðvar 2 og Hringbraut. Spurt var hvort erfiðara væri að finna konur sem viðmælendur á einhverjum tilteknum sérsviðum . Níu sérsvið voru oftast nefnd. Sjávarútvegur og tæknimál voru þar efst á blaði, auk upplýsingatækni, upplýsingaöryggis, orkumála, íþrótta, viðskipta, nýsköpunar, vísinda og stjórnmála. Því er leitað að einni konu með sérþekkingu á hverju af þessum sjö sviðum, en tveimur til þremur konum í sjávarútvegi og tæknimálum.

Skilyrðin sem þarf að uppfylla til að fá aðgang að fjölmiðlaþjálfuninni eru eftirfarandi:

1) Vera laus til að taka þátt í þjálfuninni þann 8. febrúar 2020 frá kl. 8:30 til kl. 18:00.

2) Vera tilbúin til að deila reynslu sinni af fjölmiðlaþjálfuninni með FKA-konum á „Sýnileikadegi FKA“ sem haldinn verður 28. mars 2020.

3) Hafa áhuga á að mæta í viðtöl í sjónvarpi og útvarpi þegar eftir því er leitað.

4) Vera í sjálfstæðum rekstri eða gegna stöðu stjórnanda eða millistjórnanda hjá fyrirtæki eða opinberum aðila.

5) Hafa sérþekkingu á einni af þeim greinum sem taldar eru upp hér á eftir:

a) Upplýsingatækni (t.d. stafræn þróun, fjórða iðnbyltingin, sjálfvirknivæðing, notkun gervigreindar o.fl.).

b) Upplýsingaöryggi (t.d. árásarvarnir eða árásarprófanir á upplýsingakerfi o.fl.).

c) Sjávarútvegur.

d) Orkumál (t.d. jarðhiti, orkuskipti o.fl.).

e) Íþróttir (t.d. keppnisíþróttir, jaðarsport, þjálfun o.fl.).

f) Viðskipti (t.d. fjármálamarkaðir, verðbréfaviðskipti, hagfræði, hlutabréfamarkaðir, þróun vaxta og verðbólgu).

g) Nýsköpun (t.d. startup-fyrirtæki, viðskiptahraðlar, fjármögnun, hugmyndavinna, fræðsla um nýsköpun o.fl.).

h) Vísindi (t.d. læknavísindi, reynsla af stórum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, þróun mannkyns og vísinda o.fl.).

i) Stjórnmál (t.d. alþjóðastjórnmál, innlend stjórnmál, sértæk þekking á stjórnmálum tiltekinna þjóða eða heimsálfa).

Ef þú uppfyllir framangreind skilyrði skaltu fylla út umsókn um þátttöku í þjálfunarprógramminu ásamt upplýsingum um prófgráðu, reynslu og núverandi starf.

Sérstök valnefnd sér um yfirferð umsókna og skilar tillögum til FKA um þær konur sem boðin verður þátttaka í verkefninu. Valnefndina skipa:

– Hulda Bjarnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri FKA og fjölmiðlakona sem nú starfar á alþjóðasviði mannauðs hjá Marel.

– Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, sjónvarpskona hjá Stöð 2.

– Gunnar Hansson, útvarpsmaður á Rás 1.

– Sigmundur Ernir Rúnarsson, sjónvarpsstjóri á Hringbraut.

Ef margar konur sækja um sem búa yfir sambærilegri reynslu mun valnefnd daga úr umsóknunum.

Athugið að ekki er skilyrði að vera félagskona í FKA til að fá aðgang að verkefninu, en þær konur sem valdar verða til þátttöku skuldbinda sig til að deila reynslu sinni af þátttöku í því á opnum fundi með FKA konum að því loknu.


SÆKJA UM HÉR


Umsóknarfrestur er til og með 8. janúar 2020.

RUV-fra-Sigga