FKA heiðrar þrjár athafnakonur í Hörpu

FKA heiðrar þrjár athafnakonur í Hörpu

Það var mikið um dýrðir í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu síðdegis í dag þar sem FKA; Félag kvenna í atvinnulífinu afhenti sínar árlegu viðurkenningar að viðstöddum fjölda þeirra karla og kvenna sem standa í framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður félagsins ávarpaði gesti og bauð þá velkomna en að því búnu afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra þremur athafnakonum sérstakar viðurkenningar.

Hér má sjá myndir frá hátíðinni – SMELLTU HÉR

FKA viðurkenningin 2015

FKA viðurkenninguna 2015 hlaut Guðbjörg Magnea Matthíasdóttir, einn aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja. Guðbjörg er fædd og uppalin í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands lá leið hennar í Kennaraháskóla Íslands. Hún útskrifaðist sem kennari vorið 1976 og giftist Sigurði Einarssyni, lögfræðingi og þáverandi forstjóra Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja og síðar Ísfélags Vestmannaeyja sem er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.

Árið 2000 var ár áfalla í lífi Guðbjargar, fjölskyldu hennar og sögu Ísfélagsins. Í október það ár féll Sigurður frá – og tveimur mánuðum síðar brann nýtt og glæsilegt frystihús félagsins. Að sögn Guðbjargar kom samt aldrei annað til greina en að halda ótrauð áfram. „Allra vegna“ segir hún. „Bæði fjölskyldunnar og bæjarfélagsins vegna. Þetta var einn af fjölmennustu vinnustöðunum í Vestmannaeyjum og ekki annað í boði en að taka við kyndlinum og reka fyrirtækið áfram“. Það hefur hún gert allar götur síðan með glæsibrag; dugnaði og elju. Sjálf þakkar hún velgengnina ekki síst því hversu heppin hún er með samstarfsfólk – en þeir sem til þekkja eru sammála um að hennar eiginleikar; skynsemi, áhugi og innsæi – skipti ekki minna máli. Ísfélag Vestmannaeyja er nú með starfsemi bæði í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn á Langanesi og er burðarás í báðum bæjarfélögum. Hjá félaginu starfa 250-300 manns. Er þá ótalin öll sú starfsemi sem Guðbjörg kemur að í öðrum félögum.

Aðspurð segir Guðbjörg nánast allt hafa breyst í sjávarútvegi síðan hún kom fyrst til Eyja árið 1976 – og gildir þá einu hvort litið er til skipakostsins, veiða eða vinnuskilyrða. Flestar eru breytingarnar til bóta. Það sama verður ekki sagt um samgöngumálin. „Í þeim málum hefur orðið heilmikil afturför þegar litið er til Vestmannaeyja“ segir hún. „Fyrirtæki verða að geta stólað á daglegar ferðir upp á land – en undanfarið hefur verið mikill brestur á því. Greiðar og tryggar samgöngur eru lífæð allra framleiðslufyrirtækja og ég tel að við þurfum að fara í átak í samgöngumálum um allt land“ bætir hún við.

Hvatningarviðurkenninguna

Hvatningarviðurkenninguna hlaut María Rúnarsdóttir einn stofnenda Mint Solutions. Segja má að María hafi fengið frumkvöðlaeðlið í vöggugjöf. Faðir hennar, Rúnar Sigurðsson, oftast kenndur við Tæknival, er frumkvöðull á sínu sviði og dóttirin stóð varla fram úr hnefa þegar hún fór að láta til sín taka í fyrirtækinu. Byrjaði á að sópa gólfin en eftir því sem árunum … og sentimetrunum fjölgaði … urðu verkefnin sífellt vandasamari. Þegar kom fram á unglingsár var hún orðin staðráðin í að stofna sitt eigið fyrirtæki bara um leið og henni dytti eitthvað „sniðugt“ í hug.

Hugmyndin kviknaði svo 2007 þegar hún og eiginmaður hennar Ívar Helgason læknir voru í framhaldsnámi við MIT og Harvard í Bandaríkjunum. En hugmyndin er ekki bara „sniðug“ heldur sparar hún tíma, mannafla … og það sem meira er; bjargar mannslífum. Um er að ræða lyfjagreini; tæki ætlað sjúkrahúsum sem þekkir lyf og sendir hjúkrunarfræðingum skilaboð um hvort viðkomandi lyfjagjöf sé rétt. Árið 2010, eftir tveggja ára rannsóknir, stofnuðu María, Ívar og Gauti Reynisson fyrirtækið og hófust handa við að smíða frumgerð tækisins úti í bílskúr. „Það má kannski segja að strax þarna hafi það komið sér vel að hafa alist upp hjá frumkvöðli“ segir María. „Ég var alvön því að það væri unnið allan sólarhringinn, svo það kom mér ekki á óvart hversu gríðarleg vinna það er að stofna fyrirtæki.“ Vorið 2011 komu fyrstu íslensku fjárfestarnir að félaginu.

Eftir það hafa hlutirnir gerst hratt.  „Sniðuga hugmyndin“ hefur nú þegar verið tekin í notkun á þremur sjúkrahúsum í Hollandi. Tveir erlendir sjóðir; franskur og hollenskur,  hafa fjárfest í fyrirtækinu – fyrir um 4 milljónir evra samtals. Sökum gjaldeyrishafta hérlendis voru höfuðstöðvarnar fluttar til Hollands að kröfu fyrrnefndra fjárfesta. Starfsemin er hinsvegar nokkuð alþjóðleg og starfsmenn fyrirtækisins staðsettir á Íslandi, í Hollandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Pakistan.

Eins og gefur að skilja snúast umræðurnar við matarborðið mikið um viðskipti og  vöruþróun enda hjónin bæði algjörlega sannfærð um að þeirra hugmynd sé framtíðin. Og þau eru ekki ein um það því æ fleiri stofnanir víða um heim hafa nú sýnt uppfinningu þeirra áhuga. „Tækifæri Mint eru gríðarleg“ fullyrðir María. „Við ætlum okkur að sigra heiminn, einn bita í einu. Við byrjum á Evrópu en stefnum svo á Bandaríkjamarkað og erum nú þegar farin að leggja drög að því.“

María Rúnarsdóttir er einn stofnenda og eigenda Mint Solutions og var stjórnarformaður þess um tíma. Nú situr hún í stjórn félagsins og hefur haft yfirumsjón með öllum samningum þess. Fyrir flesta væri þetta alveg nóg … en auk þessa gegnir hún stöðu fjármálastjóra hjá fasteignafyrirtækinu SMI og gegnir stöðu stjórnarformanns hjá fjármálafyrirtækinu Artica Finance.

Þakkarviðurkenninguna


Þakkarviðurkenninguna hlaut Guðný Guðjónsdóttir, eigandi Mokka-Kaffi.

Það er ekki bara Félag kvenna í atvinnulífinu sem stendur í þakkarskuld við Guðnýju Guðjónsdóttur. Nafn hennar og fyrirtæki er samofið íslenskri menningu;  á sér öruggan stað í hjarta listamanna landsins sem og listunnenda – sælkera, stúdenta og hvers kyns spekúlanta. Það er nánast óhætt að fullyrða að mikill meirihluti borgarbúa beri sterkar taugar til fyrirtækisins … og sé henni og fjölskyldu hennar óendanlega þakklát fyrir framlag þeirra til menningarlífsins í víðustu merkingu þess orðs.

Flestir þeirra hafa líka á einhverjum tímapunkti tyllt sér niður á Mokka; ýmist einir eða í hópi vina; drukkið í sig andrúmsloftið, hlustað á djúpar samræður eða eldheitar pólitískar rökræður á næsta borði – nú eða hamast bara í sínu horni við að leysa sjálfa lífsgátuna.

Guðný og eiginmaður hennar Guðmundur Balvinsson stofnuðu Mokka-Kaffi fyrir 57 árum. Hann var þá nýkominn úr söngnámi á Ítalíu þar sem kaffi er annað og meira en lapþunn uppáhelling. Þar hafði kviknað sú hugmynd að kynna ítalska kaffimenningu fyrir Íslendingum og opna kaffihús. Guðný var aðeins meira hikandi í fyrstu enda hugmyndin þá æði nýstárleg. Hún ákvað samt að stökkva með honum út í djúpu laugina … með krosslagða putta  … og í maímánuði 1958 tóku þau á móti fyrstu kúnnunum. Þeim fjölgaði síðan hratt og örugglega  og sennilega var það listhneigð þeirra hjóna og vinsamlegt viðmót sem olli því að listamenn landsins tóku sérstöku ástfóstri við staðinn. Sú velvild var svo sannarlega endurgoldin og smám saman urðu þau hjón nokkurs konar velgjörðarmenn skapandi fólks; gerðu þeim kleift að koma list sinni á framfæri.  

Guðný og Guðmundur voru sannkallaðir frumkvöðlar; ruddu braut sem síðan margir hafa fetað – hver með sínum hætti.  Engu að síður nýtur Mokka-Kaffi enn mikillar sérstöðu … ekki síst vegna þess að eigendurnir hafa neitað að láta undan duttlungum tískunnar hverju sinni.  Þegar það var í tísku að færa út kvíarnar og stofna keðjur – þá hristu hjónin á Mokka höfuðið yfir hverju tilboðinu á fætur öðru og sögðust ætla að einbeita sér „að þessu litla barni sínu sem vex aldrei úr grasi“. Guðný hefur heldur aldrei velt því neitt sérstaklega fyrir sér hvort pastellitir séu „in“ eða „out“ akkúrat núna – hvað þá heldur úr hvaða efni loftljósin eigi að vera þetta árið. Og kannski liggur Mokka-galdurinn einmitt þar. Þegar fólk fer á Mokka þá losnar það eitt andartak undan þessum ein-nota nútíma og fær næði til að hugsa, spjalla og njóta … í friði. 

Mokka-Kaffi er fjölskyldufyrirtæki í orðsins fyllstu merkingu. Börn þeirra hjóna kunna öll á espresso vélina og nú eru barnabörnin líka farin að baka vöfflurnar ljúffengu bak við borðið. Og ekki nóg með það. Fjölskyldan hefur búið á hæðunum fyrir ofan Mokka í marga áratugi og Guðný segist helst vilja búa í miðbænum, svo lengi sem hún ráði við stigana. Eftir að Guðmundur lést árið 2006 hafa dætur þeirra Guðnýjar komið meira að rekstrinum en áður. „Ég er samt ekki tilbúin til að bakka alveg út“ viðurkennir Guðný. „Ég er svo þrjósk.“

Margir eru einmitt þakklátir fyrir þessa „þrjósku“ konunnar sem rekið hefur bæði kaffihús og „menningarsetur“ á Skólavörðustígnum í 57 ár; konunnar sem segist bara drekka einn kaffibolla á dag. „En hann verður að vera alvöru“ segir hún. „Einn espresso uppúr hádeginu … og vatnsglas með.“