FKA pistill vikunnar

Félagskonan, Halldóra Matthíasdóttir útibússtjóri Íslandsbanka í Garðabæ og formaður Þríþrautarnefndar og ÍSÍ Dale Carnegie þjálfari skrifar FKA pistil vikunnar í Markaðinn.

Lesa pistilinn á Vísir.is

Það er létt yfir landanum. Gott gengi strákanna okkar á EM hafði mjög jákvæð áhrif á andlega heilsu þjóðarinnar og við gleðjumst enn fremur yfir góðu gengi kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu. Stelpurnar okkar eru nú í 16. sæti á styrkleikalista FIFA og fóru upp um fjögur sæti eftir sigra á Skotlandi og Makedóníu í undankeppni EM en úrslitakeppnin fer fram í Hollandi á næsta ári. Landslið kvenna er í 9. ?sæti í röð Evrópuþjóða. Keppendur okkar á EM í frjálsum íþróttum tóku við keflinu af fótbolta­strákunum. Þær Aníta Hinriksdóttir og Ásdís Hjálmsdóttir komust báðar í úrslit í sínum keppnisgreinum og enduðu báðar 8. sæti og Arna Stefanía Guðmundsdóttir í undanúrslit og endaði í 18. sæti á EM sem er frábær árangur. Enn gleðst landinn.

Samkennd þjóðarinnar og hæfileikinn til að fagna einlæglega og gleðjast hefur vakið jafnmikla ef ekki meiri athygli en árangurinn í EM-keppninni sjálfri. Erlendir fréttamiðlar og netheimar keppast um að birta samantektir af íþróttaafrekinu á EM og fögnuði Íslendinga, sérstaklega víkingaklappinu. Svo merkileg er öll þessi samstaða og tjáning landans að mannfræðingar um víða veröld hafa fundið sér nýtt rannsóknarefni sem er samstaða og hamingja lítillar þjóðar í ljósi íþróttaafreka.

Það er mikilvægt að fagna góðum árangri hvort sem er í íþróttum eða viðskiptum og það höfum við, íslenska þjóðin, klárlega gert þannig að eftir því hefur verið tekið um allan heim. Landsliðsþjálfararnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson fóru af stað með það markmið að komast alla leið á EM og blésu eldmóði í landsliðið. Sama hefur Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna, gert og frjálsíþróttafólkið okkar setur sér stöðugt ný markmið að stefna að með frábærum árangri.

Þessi frábæri árangur á EM bæði í knattspyrnu og frjálsum íþróttum hvetur fólk áfram, eflir nýliðun í íþróttagreinunum og er mikil vítamínsprauta fyrir komandi verkefni.

Strákarnir okkar þakka áhorfendum og allri hvatningunni að heiman. Við hjá Íslandsbanka þökkum á sama hátt viðskiptavinum okkar fyrir óskir um gott gengi. Án þeirra, án frábærrar samvinnu undanfarin ár og samstöðu, hefðum við ekki náð markmiðum okkar.