FKA Viðurkenningarhafar 2017

Mynd-1-FKA-vidurkenningarÞað ríkti sannkölluð hátíðarstemning í
Silfurbergi í Hörpu þegar FKA afhenti sínar árlegu viðurkenningar að viðstöddum fjölda þeirra karla og kvenna
sem standa í framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs.  Lóa Þórhallsdóttir,
formaður félagsins ávarpaði gesti og bauð þá velkomna en að því búnu afhenti
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þremur konum úr atvinnulífinu
viðurkenningar félagsins.

FKA
viðurkenninguna 2017 hlaut Guðrún Hafsteinsdóttir, einn eiganda og
markaðsstjóri Kjöríss, formaður Samtaka iðnaðarins, varaformaður Samtaka
atvinnulífsins. 

HÉR má sjá myndband af Guðrúnu unnið af FKA og SIGVA Media

Guðrún lauk námi í mann- og kynjafræði frá Háskóla Íslands, er
mikill jafnréttissinni og hefur verið óþreytandi við að hvetja konur til að
láta til sín taka á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Sjálf hefur hún verið
óhrædd við að stökkva út í djúpu laugina og taka að sér ábyrgðarmikil og
krefjandi verkefni. Þann kjark þakkar hún ekki síst foreldrum sínum. „Þau höfðu
óbilandi trú á okkur systkinunum og ég man ekki eftir að kyn hafi nokkurn tíman
verið fyrirstaða í þeirra huga. Þau hafa verið okkur öllum ómetanlegar
fyrirmyndir“ segir hún. 

Guðrún hefur langa og víðtæka reynslu af atvinnurekstri. Ekki aðeins hefur hún
setið í stjórn fjölskyldufyrirtækisins Kjöríss frá unga aldri heldur tók hún
við starfi framkvæmdastjóra félagsins aðeins 23 ára að aldri eftir fráfall föður síns og gegndi því í
nokkur ár. Hún var síðar búsett í Þýskalandi í fimm ár en sneri aftur heim árið
2003, full af uppsafnaðri orku og athafnaþrá.  Guðrún var fyrst kjörin formaður Samtaka
iðnaðarins á Iðnþingi 2014 – og hefur verið endurkjörin tvisvar eftir það. Árið
2015 var hún kjörin varaformaður Samtaka atvinnulífsins og 2016 tók hún við
stjórnarformennsku í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Auk þess starfar hún sem
markaðsstjóri Kjöríss.

Í
rökstuðningi dómnefndar segir að Guðrún Hafsteinsdóttir hafi verið konum í atvinnulífinu
sérstök hvatning og fyrirmynd bæði á sviði atvinnureksturs og með framlagi sínu
í Samtökum Iðnaðarins, og Samtökum atvinnulífsins.

 

Hvatningarviðurkenningu FKA hlaut Dr. Hólmfríður
Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein ehf og Protis ehf. 

HÉR má sjá myndband af Hólmfríði unnið af FKA og Sigva Media

Hólmfríður
lauk meistaranámi  frá Justus-Liebig
Universität í Giessen í Þýskalandi  og
doktorsprófi í lífvísindum og næringarfræði frá Háskóla íslands 2009. Hún er
fædd og uppalin í Skagafirði og sneri þangað aftur að námi loknu þar sem hún
stýrir nú tveimur frumkvöðla fyrirtækjum; rannsóknarfyrirtækinu Iceprotein og
Protis íslensku líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu
á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski. Þannig nýtir hún þekkingu
sína, reynslu og kraft í að efla orku og lífsþrótt landsmanna. Hólmfríður er
sannfærð um að Íslendingar eigi í auknum mæli eftir að nýta hreina og óspillta
náttúru landsins til að framleiða matvæli. 
„Við sitjum á hvílíkum heilsueflandi verðmætum – og eigum að framleiða
miklu meira“ segir hún.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að „Hólmfríður sé frumkvöðull
þegar kemur að nýtingu afurða úr sjávarútvegi, sé aðili að fyrirmyndar
samstarfi innan sveitarfélags á landsbyggðinni og milli háskóla- og
rannsóknarstofnana með stuðningi atvinnulífsins.“

 

Þakkarviðurkenningu FKA
2017 hlaut Hafdís Árnadóttir, stofnandi og eigandi Kramhússins. 

HÉR má sjá myndband af Hafdísi unnið af FKA og SIGVA media 

Hafdís er fædd og uppalin á Hjalteyri í Eyjafirði, stundaði nám við
íþróttaskólann á Laugarvatni áður en hún hélt utan til Danmerkur þar sem hún
lagði stund á dans eða „rytmegymnastik“ í skóla Lis Burmeister. Eftir
heimkomuna stofnaði hún leikfimiskóla sem kenndur var við hana og bauð m.a. upp
á svokallaða „frúarleikfimi“. Árið 1972 var Hafdís fengin til að kenna
líkamsbeitingu og líkamsþjálfun við nýstofnaðan Leiklistarskóla SÁL – og síðar
við Leiklistarskóla Íslands þar sem hún kenndi þar til fyrir nokkrum árum.

Kramhúsið var stofnað 1984 og vakti
strax athygli fyrir fjölbreytt og nýstárleg námskeið. Sjálf segist Hafdís líta
á Kramhúsið sem nokkurs konar gróðurhús; þar hafi margt farið af stað; byrjað
að spíra, þroskast og stækkað. Nægir þar að nefna Kvennakór Margrétar
Pálmadóttur og Sirkus Ísland. En þó Hafdís segi velgengni Kramhússins fyrst og
fremst fólkinu í kringum hana að þakka; viðskiptavinum, starfsfólki og
stuðningsliði er flestum ljóst að ástríða hennar, dugnaður og víðsýni skipti
sköpum í sögu Kramhússins. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.: „Hafdís er
brautryðjandi og hefur verið driffjöður í áratugi fyrir litríku lista- og
menningarlífi. Hafdís hefur innleitt nýjungar, skapað alþjóðlegar tengingar og
hefur stuðlað að fjölbreyttara samfélagi með lífsstarfi sínu. “

FKA skipar dómnefnd á hverju ári til að
velja þær konur sem hljóta viðurkenningar félagsins hverju sinni.

Dómnefnd 2017:

Áshildur Bragadóttir,
forstöðumaður Höfuðborgastofu
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins
Herdís Jónsdóttir eigandi og fjármálastjóri Happy Campers
Jakob Sigurðsson, forstjóri VÍS
Jónína Bjartmarz, framkvæmdastjóri Okkar Konur Kína ehf
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri NOVA
Jón Diðrik Jónsson, framkvæmdastjóri Senu

FKA þakkar öllum þeim sem stóðu að hátíðinni með FKA og óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.