Frá 2009 hefur kvenstjórnarsætum fjölgað um tæplega 2000

Í dag taka gildi ný lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns sé að lágmarki 40% í stjórnum lífeyrissjóða, hlutafélöga, einkahlutafélöga, samlagshlutafélöga og opinberra hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli. 

Það var fyrir  tæpum áratug sem Félag kvenna í atvinnulífinu hóf að vekja máls á því hversu fáar konur skipuðu stjórnarsæti í stærstu  fyrirtækjum landsins og vakti það athygli í byrjun árs 2008 þegar FKA og LeiðtogaAuður birtu sameiginlega auglýsingu undir yfirskriftinni „Við segjum já“.  Þar var vísað til þess að yfir 100 hæfar og reynslumiklar konur væru reiðubúnar að setjast í stjórnir fyrirtækja og um leið var tilgangurinn að benda á að sú gamla mýta að erfitt væri að finna konur í stjórnir fyrirtækja væri úrelt. konur væru reiðbúnar til ábyrgðarstarfa í atvinnulífinu.

Á 10 ára afmæli FKA, þann 15.maí 2009 undirrituðu FKA, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins  og CreditInfo formlega samning um að taka höndum saman og fjölga konum í forystusveit íslensk atvinnulífs til loka ársins 2013 þannig að hlutur hvors kyns yrði ekki undir 40%.

Fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi studdu samninginn.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður Félags kvenna í atvinnulífinu er ánægð með árangurinn. „Við hjá FKA erum sérstaklega ánægðar með þá samfélagslegu breytingar og vitundarvakningu sem orðið hefur með stjórnarsetu umræðunni undanfarin ár. FKA hefur lengi talað fyrir fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja enda hafa innlendar og erlendar rannsóknir sýnt fram á að bæði kyn í stjórn sýna rekstrarlega betri árangur.  Undanfarin misseri hefur orðið mikill breyting á samsetningu stjórna hjá Lífeyrissjóðunum og stærstu fyrirtækjum landsins og þau setja tóninn fyrir minni og meðalstór fyrirtæki.

Frá vorinu 2009 hefur kvenstjórnarsætum fjölgað um tæplega 2000
Ný gögn frá CreditInfo sýna að frá því vorið 2009 hefur stjórnarsætum skipað af konum fjölgað um 1.843 eða frá því að hafa verið 9.347 í maí 2009 í að teljast 11.280 í dag. Til enn frekari samanburðar má nefna að konur í stjórn voru 7.888 talsins í maí 2005 og hefur þvi fjölgað um 3.392 sæti á síðustu sjö árum. Það ber þó að hafa í hug að fyrirtækjum hefur einnig fjölgað á sama tímabili.

Jöfn kynjahlutföll í stjórn mikilvæg
Í gögnum frá CreditInfo kemur einnig í ljós að ef aðeins karlmenn sitja í stjórnum fyrirtækja þá eru aðeins 5,4% líkur á að kona verði ráðin sem framkvæmdastjóri. Ef bæði kyn sitja í stjórn eru möguleikar kvenna hins vegar 29% á móti 71% líkum á ráðningu karlmanns sem framkvæmdastjóra. 

Það sama gildir um stjórnir þar sem eingöngu konur sitja í stjórn.  Þá sýna tölur að karlmenn hafa aðeins 22% möguleika á að vera ráðnir sem framkvæmdastjórar.

Konur áberandi sem stjórnarmenn í nokkrum atvinnugreinum.
Konur eru áberandi sem stjórnarmenn í nokkrum atvinnugreinum samkvæmt tölum frá CreditInfo.  Sem dæmi má nefna eru um þriðjungur stjórnarsæta fyrirtækja með gististaða- og veitingarekstur skipuð konum og 29% stjórnarsæta fyrirtækja í verslun eru skipuð konum. Konur eru í meirihluta stjórnarsæta félagasamtaka og fyrirtækja sem skilgreinast í þjónustustarfssemi.  Þá eru konur 36,7% stjórnarmanna fyrirtækja í fræðslustarfssemi og 36% stjórnarmanna í fyrirtækjum sem starfa á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu.  Konur sem stjórnarmenn fyrirtækja í ferðaþjónustu og verslun eru einnig áberandi.