,,Innan FKA er verið að vinna mjög öflugt félagsstarf,” Ásta Dís Óladóttir dósent HÍ.

Starfsþjálfunarsamningur milli Félags kvenna í atvinnulífinu FKA og Viðskiptafræðideildar HÍ var undirritaður nýverið og tveir nemendur komnar um borð í starfsþjálfun hjá FKA.

Við bjóðum þær Júlíu Sif Liljudóttur og Vanesa Hoti velkomnar.

„Þessi samningur er fengur fyrir nemendur deildarinnar því innan FKA er verið að vinna mjög öflugt félagsstarf og tækifærin eru mörg fyrir áhugasama nemendur,“ segir Ásta Dís Óladóttir dósent HÍ af þessu tilefni.

Með starfsþjálfunarstöðunni fær nemandi að kynnast lifandi starfi félagasamtaka og fá innsýn inní almenna starfsemi FKA. „Glöggt er gesta augað og það verður spennandi að fá nemanda til að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg viðfangsefni í starfsemi félagsins með að sinna afmörkuðum verkefnum tímabundið. Ég efast um að við náum að leysa lífsgátuna en samtalið er mikilvægt á tímum sem þessum. Mikilvægt að taka saman höndum um hvernig við ætlum að tækla nýjan veruleika – og mæta stærstu áskorunum samtímans,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA.

„Í FKA er sterkur hópur ólíkra kvenna um land allt sem sækir fram og með félagaaðild ertu að setja þig í forgang, taka frá tíma fyrir þig sjálfa, fjárfesta í þér og njóta góðs að öflugu tengslaneti athafnakvenna úr öllum greinum atvinnulífsins. Öflugt starfsár FKA er að fara af stað, að sjálfsögðu í takt við nýja tíma,“ bætir Andrea við.