Íslandsbanki aðalstyrktaraðili FKA


Íslandsbanki og Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) hafa undirritað nýjan samstarfssamning en bankinn hefur verið aðalstyrktaraðili félagsins frá árinu 2010. Samningurinn gildir til ársins 2017. 
Markmið samningsins er að efla starfsemi FKA og leggja áfram áherslu á að miðla fjármálatengdri þekkingu og reynslu til félagskvenna og styrkja þannig möguleika þeirra á enn frekari árangri og arðsemi tengdri fyrirtækjarekstri.


Stjórn FKA er afar þakklát fyrir áframhaldandi stuðning enda hefur bankinn gert félaginu kleift að þróa og styrkja innviði félagsins í heild. 

Stjórnendur Íslandsbanka hafa ávallt haft það að leiðarljósi og um leið verið fyrirmynd í atvinnulífinu, er kemur að því að virkja kraft kvenna innan sinna raða. Þar er einnig lögð áhersla á jafnan rétt kynjanna í ráðningarstefnu bankans sem og jafnan rétt til starfsþróunar.  

Eins hefur bankinn undirritað Jafnréttissáttmálann (e. Women‘s Empowerment Principles) sem er samstarfsverkefni Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna (UNIFEM) og Hnattræns samkomulags Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum (e. United Nations Global Compact) og veitir leiðbeiningar um hvernig efla megi konur á vinnustaðnum, á vinnumarkaði og í samfélaginu. 

Á myndinni má sjá formann FKA, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, ásamt Birnu Einarsdóttur bankastjóra, undirrita samstarfssamninginn.