Íslenskar stjórnarkonur í atvinnulífinu hluti af alþjóðlegum gagnabanka

Ef fram fer sem horfir mun árið 2013 marka tímamót í sögunni – því á því ári mun konum fjölga til muna í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Eftirspurnin eftir hæfum konum hefur líka stóraukist erlendis því í flestum vestrænum ríkjum er nú unnið að því hörðum höndum að jafna hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja. Til að mæta þessari auknu eftirspurn hafa verið sett á stofn alþjóðleg samtök Global Board Ready Women (GBRW) sem hafa það að markmiði að aðstoða fyrirtæki við að finna konur til að taka sæti í stjórnum félaga víða um heim.

Um er að ræða víðtækan gagnagrunn sem settur var saman í samstarfi við marga af virtustu háskólum í Evrópu og Bandaríkjunum sem og samtök kvenna í atvinnulífinu beggja vegna Atlantsála. Áætlað er að á Alþjóðadegi kvenna 1. mars 2013 verði 8000 hæfar konur á skrá hjá GBRW og má því fullyrða að þeim hafi nú þegar tekist að afsanna þá kenningu að það sé nánast ógjörningur að finna konur sem séu bæði hæfar og fúsar til stjórnarþátttöku.  

GBRW hafa nú boðið þeim FKA konum sem hafa áhuga á að sitja í stjórnum alþjóðlegra fyrirtækja að bjóða fram starfskrafta sína með því að skrá sig í gagnagrunn samtakanna.

Leitað er að konum sem hafa fimm ára reynslu sem eitthvað af eftirtöldu:

  • Stjórnarmaður í fyrirtæki sem er einkahlutafélag eða skráð á almennum markaði
  • Lykilstjórnandi hjá einkahlutafélagi eða félagi sem skráð er á almennum markaði
  • Fjölskyldumeðlimur sem fer með ráðandi hlut í stjórn stórs fjölskyldufyrirtækis
  • Stjórnandi ríkisstofnunar
  • Stjórnandi góðgerðarfélags eða stofnunar sem ekki er ætlað að bera fjárhagslegan arð
  • Eignastýring eða fjárfestinga-ráðgjafi fyrir félög eða stofnanir
  • Ráðgjafi stjórna eða nefnda fyrirtækja eða stofnana
  • Frumkvöðull
  • Leiðandi sérfræðingur með menntun og/eða reynslu sem gagnast viðkomandi fyrirtæki
Viðkomandi konur þurfa einnig að geta sýnt fram á fjármálalæsi sitt. Upplýsingar um reynslu viðkomandi af rekstri eru einnig kostur.


Auk þess er farið fram á framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum. Í því felst að viðkomandi:

… eigi auðvelt með að tjá sig og sé góður „hlustandi“

… hafi mikla tilfinningagreind – hæfni til að „lesa“ stemmninguna við stjórnarborðið og hæfni til að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma
… geri sér grein fyrir kostum sínum og göllum
… taki gagnrýni vel og geti notað ábendingar annarra til að bæta framlag sitt enn frekar
… geti leitt hóp þegar þörf er á – en sé jafnframt meðvitaður um sameiginlega ábyrgð og þátttöku
… geti sett gagnrýni fram á uppbyggilegan hátt og sýnt stuðning þegar á þarf að halda
… sé snöggur að hugsa og hafi góða dómgreind
… skilji mikilvægi sjálfstæðrar hugsunar
… hafi hugrekki til að berjast fyrir hagsmunum félagsins
… skilji hvernig hann geti bætt stjórnina
… sé góður „liðs-maður“

Til að skrá sig í gagnabanka GBRW þurfa viðkomandi konur að vera með aðgangskóða frá FKA. Þann kóða er hægt að nálgast með því að hafa samband við framkvæmdastjóra FKA hulda@fka.is . Einnig þurfa umsækjendur að skrá sig inn sem notendur á LinkedIn. Í gegnum þann vef tengjast þær samtökunum og öllum þeim athafnakonum sem eru skráðar í gagnagrunn samtakanna.

Sjá fréttatilkynningu um GBRW vefinn: http://europa.eu/rapid/press-release_IP-12-1358_en.htm

Í beinu framhaldi er rétt að minna á að í samvinnu við Opna háskólann býður FKA upp á afar fræðandi námskeið um ábyrgð og árangur stjórnarmanna. Sjá: http://www.opnihaskolinn.is/stjornmennt/namskeid/abyrgd-og-arangur-stjornarmanna/

Fleiri námskeið eru einnig í boði fyrir þær sem vilja styrkja stöðu sína enn frekar þegar kemur að stjórnarsetu. T.a.m. mun Financial Times í mars n.k. bjóða  upp á 6 mánaða nám um allt er lýtur að stjórnarsetu í  alþjóðlegum fyrirtækjum.