Karlar virkjaðir í jafnréttisbaráttu á Rakarastofuráðstefnu 

Ráðstefna þar sem karlar eru virkjaðir í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna, er hafin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og stendur yfir dagana 14.-15. janúar.

Ísland og Súrinam standa saman að ráðstefnunni sem kallast Rakarastofuráðstefna en ætlunin með henni er að fá karla að borðinu til að fjalla um jafnrétti og hafa áhrif á umræðuna um kynjajafnrétti. Háttsettir erlendir ráðamenn, baráttufólk fyrir jafnrétti og þekktir einstaklingar taka þátt í ráðstefnunni sem verður að hluta til send beint út á vefnum:
www.barbershopconference.org

„Við verðum að fá karla að borðinu þegar verið að er að ræða um jafnrétti. „Hvar eru karlarnir?“, spurði Vigdís Finnbogadóttir á jafnréttisráðstefnu fyrir áratug og spurning hennar er því miður enn réttmæt,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á vef ráðuneytisins. 

 „Við viljum brýna karla til að stefna að raunverulegu jafnrétti, að breyta staðalímyndum og gera sér grein fyrir því að jafnréttismál eru fyrst og fremst mikilvægt mannréttindamál“, sagði Gunnar Bragi sem opnaði ráðstefnuna.