Konum hefur fjölgað töluvert í stjórnum fyrirtækja

Niðurstöður könnunar KPMG meðal stjórnarmanna 2012 

Konum í stjórnum fyrirtækja hefur fjölgað töluvert milli ára ef marka má könnun KPMG meðal stjórnarmanna í íslenskum félögum og sjóðum. 

KPMG hefur á undanförnum árum unnið með félögum og stjórnum þeirra að bættum stjórnarháttum með margvíslegum hætti, t.d. með útgáfu útgáfu „Handbókar stjórnarmanna“ sem fengið hefur góðar undirtektir. Á síðasta ári var í fyrsta sinn lögð könnun fyrir stjórnarmenn, Könnun meðal íslenskra stjórnarmanna 2011,sem hafði það að markmiði að kortleggja nokkur lykilatriði varðandi stjórnarmenn og störf stjórna á Íslandi. Ákveðið var í samstarfi við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands að leggja aftur könnun fyrir þá sem sitja í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða hér á landi árið 2012 og fór könnunin fram síðastliðið haust. Alls fengu 920 einstaklingar þátttökubeiðni og tóku 396 stjórnarmenn fullan þátt í könnuninni.

KPMG hefur nú birt skýrslu um niðurstöður Könnunar meðal íslenskra stjórnarmanna 2012 og er hægt að nálgast hana á heimasíðu KPMG og hér.

Send var beiðni til þátttöku í könnuninni til 920 stjórnarmanna í 265 félögum og 31 lífeyrissjóði og voru karlar 71% og konur 29% þeirra sem fengu beiðni. Í fyrra fengu 814 stjórnarmenn í 232 félögum og 32 lífeyrissjóðum beiðni um þátttöku og voru karlar 79% og konur 21%. Fjölgun kvenkyns stjórnarmanna er því umtalsverð þrátt fyrir að konur séu ekki 40% stjórnarmanna, en lög um 40% lágmarkshlutfall hvors kyns í stjórnum taka gildi þann 1. september á næsta ári.

Þessi fjölgun kvenna í stjórnum á Íslandi birtist meðal annars í því að af þeim stjórnarmönnum sem setið hafa í stjórn skemur en í eitt ár eru konur 51%, en af þeim sem hafa setið í stjórn í sjö ár eða lengur eru karlar 86%. Þróunin er því augljóslega í þá átt að konum fjölgi í stjórnum félaga og sjóða. 

Hér eru fréttir Viðskiptablaðsins  er tengjast kynjahlutfalli í stjórnum - Smelltu hér