Konur í startholunum fyrir Þjóðhagsráð

Mynd-FKA

Á myndinni eru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Herdís Jónsdóttir, Kolbrún Hrund Víðisdóttir, Rakel Sveinsdóttir, Danielle Pamela Neben og Anna Þóra Ísfold. Á myndina vantar Áshildi Bragadóttur stjórnarkonu, en hún er stödd erlendis.

Stjórn FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu kallar eftir meiri fjölbreytileika í kjölfar frétta um stofnun Þjóðhagsráðs, kom stjórn FKA saman í dag í Safnahúsinu við Hverfisgötu og fjallaði um málið.

Niðurstaða fundarins er neðangreind ályktun:

Ljóst er að við stofnun Þjóðhagsráðs eru stjórnvöld ekki að fara eftir jafnréttislögum nr.10/2008 sem eru í fullu gildi. Þar segir í 15. grein laganna að skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli að því gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða, í Þjóðhagsráði sitja hins vegar fimm karlmenn.

Með ályktun þessari vill FKA benda stjórnvöldum á að innan vébanda FKA og hvarvetna um okkar fjölbreytta samfélag, eru hundruð kvenna í startholunum, tilbúnar að taka að sér ábyrgð, tilbúnar að leggja hönd á plóg og tilbúnar að taka sæti í Þjóðhagsráði.

FKA eflir kraft atvinnulífsins, er leiðandi hreyfiafl sem gerir leiðtogum kleift að sækja fram í fjölbreyttu atvinnulífi. FKA er öflugt tengslanet athafnakvenna úr öllum geirum atvinnulífsins, sem sameinar þær til aukins sýnileika og þátttöku. Er meðal annars bent á þau hundruð nafna sem birt eru á vefsíðu FKA og lista upp konur úr atvinnulífinu, sem hafa boðið sig fram til stjórnarstarfa og bera til þess margvíslega reynslu af stjórnun og rekstri  http://www.fka.is/felagatal/#stjorn

Stjórn FKA skorar hér með á stjórnvöld að bregðast við þeirri gagnrýni sem ályktun þessi felur í sér, fjölbreytni er grundvallar forsenda þess að góðar ákvarðanir séu teknar með þarfir heildarinnar að leiðarljósi.

Tökum þátt í því að breyta til batnaðar og vera til fyrirmyndar.

Stjórn FKA
Reykjavík 13. júní 2016.

Fyrir frekari upplýsingar:

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA.
Sími: 863 1136

Til aðstoðar í þessu verkefni voru félagskonurnar Olga Soffía Einarsdóttir stíllisti, www.olga.is og Kristín Bogadóttir ljósmyndari.