
Kúla 3D og Autheteq eru rísandi stjörnur tæknigeirans. Það er mat dómnefndar Deloitte, Samtaka iðnaðarins, Félags kvenna í atvinnulífinu og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Fast 50 Uppskeruhátíð tæknigeirans fyrir helgina.
Tilgangur keppninnar er að draga athygli erlendra aðila að íslenskum tæknifyrirtækjum.
Frétt Deloitte um málið – smelltu hér.
24 fyrirtæki sóttu um í Rising Star hluta Fast 50 keppninnar og valdi dómnefndin sex fyrirtæki þar af til að halda stutta kynningu á viðskiptahugmynd sinni. Þau fyrirtæki voru: Flygildi ehf., Kúla 3D, Authenteq, geoSilica, Solid Clouds og Dent & Buckle.
Annar sigurvegari Rising star var fyrirtækið Authenteq.
„Ég er ótrúlega ánægður með þessa viðurkenningu fyrir hönd Kára Þórs Rúnarssonar eiganda fyrirtækisins sem er góður vinur minn,“ sagði Vignir Örn Guðmundsson og bætir við: „Hann er nú upptekinn með fyrirtækið í Kaupmannahöfn og hafði ekki tækifæri til að vera á staðnum sjálfur.“
Vignir sjálfur er framkvæmdastjóri Radiant Games, sem gáfu nýlega út leikinn Box Island
Íris Ólafsdóttir eigandi Kúlu 3D sem gerir þrívíddarlinsur fyrir snjallsíma og myndavélar sagði ótrúlega gaman að taka þátt í keppni sem þessari og fá tækifæri að kynna fyrir fjárfestum hvaðan af úr heiminum.
„Ég hef komist töluvert langt án fjárfesta með aðstoð íslensku samkeppnissjóðanna og Kickstarter. Varan kemur út í næsta mánuði, þannig að það eru miklar breytingar í vændum.“
Aðspurð um hvernig er að vera frumkvöðull á Íslandi segir Íris það lærdómsríkt og mikla áskorun. „Viðurkenning sem þessi er mjög mikilvæg á svona löngu ferli sem getur verið oft og tíðum mikill rússíbani.“
Fá fundi með fjárfestumForsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja fá svo tækifæri til að kynna fyrirtækin sín fyrir fjárfestum á Deloitte Entrepreneur Summit í Dallas í næsta mánuði. Þar að auki munu sjóðirnir TA Associates og ABRY‘s Partners funda með öðrum sigurvegaranum.
Almar Guðmundsson formaður dómnefndar segir viðurkenningu sem þessa mikilvæga, bæði fyrir viðkomandi aðila en ekki síst fyrir íslenskt viðskipta- og sprotaumhverfi.
„Keppnin laðar fram hugmyndir og gefur þátttakendum færi á að koma saman. Viðburður sem þessi sýnir þá miklu gerjun sem er í hinum vaxandi íslenska nýsköpunargeira.“Dómnefndinu skipuðu þau, Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA, Bala Kamallakharan, fjárfestir, Helga Waage, stofnandi og framkvæmdastjóri Mobilitus, Hilmar Bragi Janusson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ og Guðrún A. Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar HR.