MOU samkomulag undirritað við indverskar athafnakonur í  FICCI-FLO

Heiðursmannasamkomulag undirritað

FKA hefur gert samstarfssamning við indversku samtökin FICCI – FLO, sem er eining innan indverska Viðskiptaráðsins. Svokallað MOU (memorandum of understanding) var undirritað þann 29. september í formlegri móttöku sem heppnaðist einstaklega vel. MOU er svokallað heiðursmannasamkomulag á milli félaganna og þannig mun FKA hafa komið á formlegu sambandi og ritað undir viljayfirlýsingu um að vilja efla tengsl. Það verður gert m.a. í gegnum Facebook, LinkedIn og öðrum nútímamiðlum. Einnig hefur FKA konum verið boðið til Indlands, en sá markaður þykir spennandi.

Dagskráin og þátttaka FKA kvenna í dagskránni

Þetta var í fyrsta skipti sem félagið fékk heimsókn frá indverskum kynsystrum sínum. Þær  voru mjög forvitnar um stöðu jafnréttismála á Íslandi en auk þess að fræðast um Ísland og íslenskt samfélag þá var tilgangur komu þeirra hingað til lands að efla viðskiptatengslin, skoða markaðinn, framþróun og skiptast á upplýsingum við íslenskar konur í atvinnurekstri.

Indverski hópurinn vildi einnig kynna sér líftækni, heilsutengda framleiðslu, tækni- og leikjageirann, í bland við jafnréttismál. Því bauð FKA upp á dagskrá með félagskonum sem tengdust þeim atvinnugreinum.

Hér má nálgast dagskránna í heild – SMELLTU HÉR (FICCI-FLO-_FKA-Agenda-29-Sept-2015).

Á VÍB fræðslu FKA kom eftirfarandi fram um Indland

Indland er í dag talið sjöunda stærsta hagkerfi heims auk þess að vera það hagkerfi sem vex hvað hraðast á meðal iðnvæddra ríkja.  Búist er við að hagkerfið vaxi yfir 7% á ári á næstu misserum. Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, er að leiða þjóðina nú í gegnum miklar breytingar þar sem markmiðið er að efla hagvöxt, innviðauppbyggingu og atvinnusköpun.  Atvinnuleysi í landinu er talið um 4,9%.  

Íbúar í Indlandi eru um 1,2 milljarðar og hefur hlutfall þeirra sem búa við fátækt farið ört lækkandi undanfarin ár.  Með aukinni atvinnusköpun og innviðauppbyggingu má búast við að framhald verði á því.  Helstu atvinnuvegir mældir í þjóðarframleiðslu eru landbúnaður (17%), Iðnaður (26%) og ýmis þjónusta (57%).  Hlutabréfamarkaður landsins hefur verið líflegur undanfarin ár og er í dag talinn ellefti stærsti markaður heims út frá markaðsverðmæti.