MYNDIR úr Hörpu: FKA heiðrar þrjár athafnakonur í Hörpu

MYNDIR FRÁ VIÐURKENNINGARATHÖFN – SMELLTU HÉR

Það var mikið um dýrðir í Hörpu síðdegis í dag þar sem FKA; Félag kvenna í atvinnulífinu afhenti sínar árlegu viðurkenningar að viðstöddum fjölda þeirra karla og kvenna sem standa í framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður félagsins ávarpaði gesti og bauð þá velkomna en að því búnu afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra þrjár viðurkenningar.

 

FKA viðurkenningin 2014 – Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova


FKA viðurkenninguna 2014 hlaut Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova; fyrirtækis sem gjarnan er talað um sem „stærsta skemmtistað í heimi“. Ef marka má þau verðlaun og viðurkenningar sem félagið hefur fengið á undanförnum árum virðist slagorðið líka nokkuð lýsandi fyrir starfsandann innan veggja félagsins og viðmót í garð viðskiptavina. Fyrir tæpu ári hlaut Nova hæstu einkunn allra fyrirtækja á Íslandi í Íslensku 

ánægjuvoginni þriðja árið í röð – og viðskiptavinir félagsins mældust þeir ánægðustu í farsímaþjónustu á Íslandi fjórða árið í röð. Um svipað leyti tók Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova við viðurkenningu sem Markaðsmaður ársins 2012. Aðspurð um galdurinn að baki þessum góða árangri segir Liv: „Það er liðsheildin og stemmningin sem hefur tekist að skapa innan fyrirtækisins – gleði, metnaður og löngun til að ná árangri. Við erum fyrst og fremst þjónustufyrirtæki og höfum gaman að því sem við erum að gera.“ 

Liv útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi og lauk prófi i viðskiptafræði frá H.Í. 1995. Á námsárunum var Liv dugleg að prófa nýja hluti rak t.d. Stúdentakjallarann einn vetur ásamt félaga sínum, vann í hvalnum í Hvalfirði eitt sumar, á sjúkrahúsinu á Siglufirði, var au-pair í Danmörku og Chicago, vann í Tyrklandi eitt sumar og i London í eitt ár. Árið 1998 hóf hún svo störf hjá Íslenska símafélaginu sem setti Tal á markað og hefur unnið á fjarskiptamarkaðnum allar götur síðan. Hún var framkvæmdastjóri markaðssviðs Vodafone við sameiningu Íslandssíma og Tals og vann síðan að því að setja lággjalda símafélagið SKO á markað.

Árið 2006 vann Liv viðskiptaáætlun fyrir nýtt símafélag ásamt félaga sínum Jóakim Reynissyni; félag sem í dag ber heitið Nova og hefur 140 manns í vinnu.

Liv Bergþórsdóttir segir að sér finnist upphafsár fyrirtækja mest spennandi og það sé áskorun að halda fyrirtæki eins og Nova síungu. Á upphafsárum fyrirtækja sé allt hægt – orkan og krafturinn mikill og það skipti fyrirtæki miklu máli að reyna að halda í þann kraft – sérstaklega á markaði þar sem hraðinn er jafn mikill og á farsímamarkaði. „…en það er einmitt hraðinn og sífelldar nýjungar sem gera fjarskiptamarkaðinn svo spennandi“ segir Liv. „Við erum ekki fyrr búin að setja 3G farsímakerfið í loftið og þjóðin byrjar að snjallsímavæðast … þá er 4G komið og ætli það sé ekki bara nokkuð stutt í 5G. Það er engin stöðnun í þessum geira og það gerir hann svo skemmtilegan.“  

Á árinu 2013 fór Liv í stjórnunarnám í IESE Business School í Barcelona. Fram að því hafði hún setið í stjórn símafélagsins Telio í Noregi í 3 ár sem er skráð félag. Hún sagði sig úr þeirri stjórn þegar hún fór í námið. Í dag stýrir hún hinsvegar Nova,  er stjórnarformaður WOW air og situr í stjórnum CCP og 66N.  „Það er gaman að fá tækifæri til að vinna með öðrum félögum en því sem maður stýrir alla jafna. Það er góður skóli og margt af því sem ég hef lært í gegnum stjórnarstörf í öðrum félögum hefur nýst mér í starfinu hjá Nova.“

Hvatningarviðurkenning – Rakel Sölvadóttir stofnandi Skema


Hvatningarviðurkenningu FKA 2014 hlaut Rakel Sölvadóttir, tölvunarfræðingur og stofnandi Skema eða reKode eins og félagið kallast erlendis. Félagið sérhæfir sig í að kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita; búa til sína eigin tölvuleiki og öðlast þannig tækniþekkingu sem mun nýtast þeim á flestum sviðum í framtíðinni. „Þau eru ótrúlega móttækileg fyrir þessari fræðslu“ segir Rakel „enda er það vel þekkt staðreynd að börn eiga miklu auðveldara en fullorðnir með að læra ný tungumál og forritun er í raun bara tungumál fyrir samskipti milli manns og tölvu. Fyrir þeim er þetta ekkert flókið.“

Fyrir Rakel er þetta heldur ekkert flókið. Hún er sannfærð um að tölvufærni og tækniþekking verði jafn veigamiklir þættir í lífi næstu kynslóðar og lestur og skrift voru í lífi þeirrar síðustu. Það skipti því höfuðmáli að tryggja að börnin okkar skilji þessa tækni – og það tryggjum við best með því að byrja sem fyrst að kenna þeim. Rakel hefur hinsvegar áhyggjur af því að menntakerfið hafi sofnað á verðinum, finni til ákveðins vanmáttar gagnvart þessari þróun og nýti sér þar af leiðandi ekki alla þá stórkostlegu kosti sem tæknin býður upp á í kennslu.

Fyrirtækið Skema ehf var stofnað í  kjölfar þess er Rakel hlaut verðlaunin „Fræ ársins 2011“ fyrir hugmyndina „Börnin í Undralandi tölvuleikjanna“. Síðan hefur félagið haldið fjöldann allan af námskeiðum fyrir börn á aldrinum 6-16 ára þar sem forritun er fléttað saman við rannsóknir í kennslufræði og sálfræði sem leitt hafa í ljós að besta leiðin til að læra sé í gegnum leik. Nú þegar hafa ríflega 2000 börn lært að forrita á þessum námskeiðum – og nú hefur fyrirtækið fært út kvíarnar, er flutt til Redmond í Washington fylki og þar sem reKode mun opna fyrsta tæknisetrið síðar í vor. Í framhaldinu verður unnið að opnun á reKode setrum í LA, San Fransisco, Las Vegas og New York áður en opnað verður fyrir sérleyfissamninga til að opna fyrir restina af heiminum.

Ástríða og árangur Rakelar Sölvadóttur hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla og fræðimanna á sviði menntunar. BBC fjallaði t.a.m. um starf hennar í nýlegum þætti um Ísland sem sýndur var í Bretlandi ekki alls fyrir löngu og fyrirtæki hennar var á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir 10 fyrirtæki sem vert væri að fylgjast með í framtíðinni. Þar var fyrirtækinu sérstaklega hrósað fyrir að vinna að því að „búa til kynslóð frumkvöðla í stað neytenda“. 

Þakkarviðurkenning – Guðbjörg Edda Eggertsdóttir forstjóri Actavis á Íslandi


Þakkarviðurkenningu FKA 2014 hlaut Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi. Guðbjörg Edda lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn en óraði ekki fyrir því að fyrir því þá að hún myndi enda sem forstjóri stórfyrirtækis á lyfjamarkaði. „Ég hafði upphaflega mestan áhuga á að vinna á rannsóknarstofu“ segir hún, „en fékk ekki það starf. Það var því eiginlega fyrir tilviljun sem ég fékk vinnu í lyfjaiðnaðinum og þaðan hef ég ekki átt afturkvæmt, ef svo má að orði komast. Satt best að segja hef ég heldur ekki haft neinn áhuga á að skipta um geira. Þessi iðnaður er í mikilli og hraðri þróun – og það hentar mér afskaplega vel.“

Guðbjörg Edda var hún ráðin markaðsstjóri lyfjafyrirtækisins Delta 1983 og gegndi stöðu aðstoðarforstjóra hjá sama fyrirtæki 1999-2002. Eftir sameiningu Delta og Pharmaco árið 2002 var hún skipuð í framkvæmdastjórn hins sameinaða félags Actavis og átti sæti í henni þar til félagið sameinaðist Watson Pharmaceuticals 2012. Auk þess starfaði hún sem framkvæmdastjóri á markaðssviði félagsins, Medis, frá árinu 2002 til 2008 er hún tók við sem aðstoðarforstjóri Actavis samstæðunnar. Árið 2010 settist hún síðan í forstjórastól Actavis á Íslandi. Það má því segja að hún hafi unnið hjá fyrirtækinu og forverum þess í þrjátíu ár. „Já, en ég er ekki að gera neitt í dag sem ég var að gera þá“ bendir hún á. „Það er bókstaflega allt breytt. Það hafa orðið gífurlegar tækniframfarir á þessum árum, rekstur fyrirtækja er orðinn mun faglegri en hann var og svo hef ég sjálf þróast heilmikið í starfi.“

Fyrsta sumarstarf Guðbjargar Eddu var í frystihúsi – en eftir að námi lauk hefur hún ávallt gegnt stöðu stjórnanda. Sjálf segist hún ekki viss hvers vegna örlögin höguðu því þannig. „Ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að maður geti gert allt sem maður vill gera“ segir hún. „Þess vegna hef ég líka alltaf beitt mér fyrir því sem ég trúi að sé fyrirtækinu fyrir bestu og kannski er það ástæðan fyrir því að ég hef valist til stjórnunarstarfa.“ Hjá Actavis á Íslandi starfa nú tæplega 800 manns og þó lyfjaiðnaðurinn hafi að sögn Guðbjargar Eddu jafnan verið heldur karllægur þá bera kynjahlutföllin hja Actavis á Íslandi ekki þess merki þar sem konur eru 62% starfsmanna.

Þrátt fyrir miklar annir og ábyrgðarmikið starf hefur Guðbjörg Edda komið víðar við enda segist hún svo lánsöm að vera bæði heilsuhraust og vinnusöm að eðlisfari. Árið 2012 var hún sæmd íslensku fálkaorðunni fyrir framlag sitt til uppbyggingar atvinnulífs á heilbrigðissviði. Hún tók um árabil virkan þátt í starfi Lyfjafræðingafélags Íslands og starfaði m.a. í fjögur ár sem varaformaður félagsins og önnur fjögur ár sem formaður. Hún var forseti Samtaka evrópskra samheitalyfjafyrirtækja, European Generic Medicines Association 2011-2013, hlaut Aldarviðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands 2012 og í fyrra Stjórnunarverðlaun Stjórnvísis.

Auk starfa sinna sem forstjóri Actavis á Íslandi situr Guðbjörg Edda nú í stjórnum Viðskiptaráðs Íslands, Össurar, Auðar Capital og Íslandsstofu.