Nýárskveðja formanns 2014

Nýárskveðja formanns – janúar 2014  

 

Kæra FKA kona.

Gleðilegt nýtt ár og megi það verða sem allra best og nákvæmlega eins og þú vilt hafa það.

Árið 2014 er merkilegt ár í sögu FKA þar sem félagið er 15 ára á árinu. Fyrir 15 árum tóku sig saman öflugar og framsýnar konur sem sáu mikilvægi öflugs tengslanets. FKA var því frá upphafi þverfaglegt félag þar sem saman komu konur úr atvinnulífinu. Félagið hefur þróast og þroskast mikið á þessum 15 árum.

Í dag er FKA opið öllum þeim konum sem gegna leiðtoga- og stjórnunarstöðum í íslenskum atvinnurekstri og eru félagskonur nú tæpleg 900 talsins. Þetta er öflugur og fjölbreyttur hópur.

Dagskrá ársins 2014 verður því lituð þessum 15 ára áfanga og munum við halda upp á það með ýmsum hætti á árinu. Fyrst ber að nefna verðlaunaafhendingu FKA þann 30. janúar n.k. þar sem við munum veita FKA verðlaunin, hvatningarverðlaun og þakkarverðlaun í Hörpu.

Takið daginn frá en boðskortin verða send til ykkar á næstu dögum. FKA leggur áherslu á fjölbreytileika og því viljum við sérstaklega hvetja FKA konur að bjóða mökum sínum með á verðlaunaafhendinguna að þessu sinni.

Dagskrá vetrarins verður öflug og fjölbreytt og hófst hún með kröftugum og nýstárlegum hætti strax í morgun þegar Rúna Magnúsdóttir stjórnarkona FKA og eigandi BRANDit stýrði „kick-start fundi“ í beinni á Facebook – Markmiðasetning 2014. Fundurinn var félagskonum að kostnaðarlausu og voru undirtektir sérlega góðar og ljóst að við stefnum að fleiri netfundum í vetur. Fundurinn er enn “opinn” á Facebook síðu félagsins (Sjá slóð neðst í skjali). Hann verður aðgengilegur til miðnættis á morgun miðvikudag.

Við minnum um leið á að félagskonur geta tekið þátt í fjarfundum í vetur. Þá skráið þið ykkur líkt og venjulega inn á viðburðinn, en sendið póst á hulda@fka.is til að fá staðfesta netslóð senda. Við innheimtum sama verð fyrir þá fundi enda er greitt fyrir áskriftarkerfi til að geta boðið upp á þessa þjónustu.

Á næstunni verður svo boðið upp á eftirfarandi viðburði:

• Sterkar konur í fjölmiðlum, miðvikudaginn 15. janúar 2014, kl. 8:30-10:00. 
Taktu þátt í fjölmiðlaverkefni FKA. Gestir eru Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, Linda Pétursdóttir eigandi Baðhússins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA og fjölmiðlakonan Hulda Bjarnadóttir. Rakel Sveinsdóttir frá SPYR.is stýrir fundi. Skráning hafin.

• Kynningarfundur um Global Summit of Women ráðstefnuna, þri 28. jan, kl. 12:00 
Alþjóðanefnd og Atvinnurekendadeild FKA standa fyrir kynningarfundi á þessari árlegu ráðstefnu sem að þessu sinni er haldin í París dagana 5. -7. júní. FKA er alþjóðlegur styrktaraðili ráðstefnunnar sem þýðir að félagskonur geta nýtt sér kjör félagasamtaka (NGO) við skráningu. Ráðstefnan sameinar konur úr atvinnulífinu, stjórnmálunum og frjálsum félagasamtökum.

• Mentoring – Að eiga sér lærimeistara, byrjun febrúar 2014 
Nýstárleg starfsþróun hefur verið í boði hjá Íslandsbanka undanfarin misseri en á síðasta ári hóf bankinn að bjóða kvennstjórnendum sínum að vinna með lærimeistara, eða „mentor“, til að stuðla að starfsþróun innan bankans. Við sækjum Íslandsbanka dömurnar heim til að fræðast um árangur, tilgang og undirtektir í þessu framsækna verkefni.

Við viljum hvetja ykkur til að fylgjast vel með dagskránni inná www.fka.is – undir fréttir. 

Það er einnig að frétta að stjórn Atvinnurekendadeildar hefur fundað að undanförnu og munu þær senda félagskonum upplýsingar á allra næstu dögum um hvernig þær beri sig að sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi deildarinnar.

Að lokum langar mig að óska félagskonum til hamingju með 15 ára afmælið og hlakka til að sjá sem flestar í öflugu starfi félagsins.

Kær kveðja
f.h. stjórnar FKA 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir 
Formaður.

 
  OPINN FACEBOOK – KICK-OFF FUNDUR um markmiðasetningu 2014 – smelltu hér