Smáþing fer fram á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 10. október næstkomandi á vegum SA. Þar verður stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tekur þátt í Smáþingi sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 10. október næstkomandi. Þar verður stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi undir merkjum Litla Íslands. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA standa að þinginu en þar verða málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi í kastljósinu.
Birtar verða tölur um umfang og mikilvægi smáfyrirtækja á Íslandi, framtakssemi Íslendinga verður mæld með hjálp Capacent og reynt verður að meta hversu mörg störf lítil og meðalstór fyrirtæki geti skapað á næstu 3-5 árum. Fjöldi frumkvöðla og fyrirlesara stígur á stokk og bendir á leiðir til að bæta að bæta rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja á Íslandi en þinggestir eru jafnframt hvattir til að koma skoðunum sínum á framfæri við Litla Ísland.