Nýsköpunarárið 2020 og appelsínugul veðurviðvörun

Þær létu ekki kolvitlaust veður stöðva sig félagskonurnar sem mættu á miðvikudagsmorgni í Hús atvinnulífsins til að ræða nýsköpun við upphaf 2020. Þar steig á stokk úrval kvenna sem starfa við nýsköpun en auk þess var á fimmta hundrað félagskvenna sem sá streymi frá fundinum.

Nýsköpunarnefnd FKA vildi á fyrsta fundi ársins 2020 taka stöðuna á konum og nýsköpun, hvert Ísland er að stefna og draga fram hlutdeild kvenna í nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi.

Sigríður Valgeirsdóttir hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hélt erindi en hún sat í verkefnastjórn um gerð Nýsköpunarstefnu Íslands.

Að því loknu tók umræðuhópur við spurningum. Hópinn skipuðu, auk Sigríðar Valgeirsdóttur:
– Sigríður Ingvarsdóttir forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands,
– Sólveig Eiríksdóttir stofnandi Himneskt og Gló,
– Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og
– Aðalheiður Jónsdóttir sviðsstjóri alþjóðasviðs Rannís.