Opnunarviðburður FKA við Búrfellsgjá fimmtudaginn 3. september 2020 kl. 17.00.

Kæra félagskona!

Það er ljóst að COVID tekur sér ekkert frí og FKA er mikilvægara sem aldrei fyrr – Því boðum við sýnileika, hreyfiafl og tengslanet í takt við nýja tíma.

Stjórnendur og leiðtogar í atvinnulífinu verða að ganga fram með góðu fordæmi og vera opnir fyrir nýjum nálgunum, gera tilraunir. Við ætlum þess vegna að halda Opnunarviðburð FKA utandyra í ár, við Búrfellsgjá fimmtudaginn 3. september 2020 kl. 17.00.

Opnunarviðburðurinn hefur verið í þróun í örfáa daga og við höfum þurft að vera kvikar í skipuleggingu á tímum sem veröldin vendist og snýst á miklum hraða.

Það hefur verið sársaukafullt og orkufrekt að þurrka góðar hugmyndir fyrir starfsárið af töflunni en nefndir, deildir og ráð innan FKA hafa verið að funda og leggja línurnar fyrir það sem koma skal á tímum COVID. Eitt er víst, FKA heldur áfram að styðja kvenleiðtoga í að sækja fram og sameina til aukins sýnileika og þátttöku. Það getum við gert með því að reima á okkur gönguskóna og ganga Búrfellsgjánna saman til heilsueflingar og yndisauka.

Fundarnálgun undir berum himni.

Í tveggja metra fjarlægð ætlum við að hefja starfsárið, ræða saman og tengja athafnakonur úr öllum greinum atvinnulífsins. Hugrekki er smitandi og stjórnendur og leiðtogar í atvinnulífinu verða að ganga fram með góðu fordæmi og gefa engan afslátt á sóttvörnum. 

FKA leggur áherslu á að sýna ábyrgð í sóttvörnum í öllu sínu starfi. Gúmmíhanskar, grímur og spritt á staðnum og fjöldatakmörkun á viðburðinn.

Af stað!

Á opnunarviðburðinum beinir félagið meðal annars kastljósi að New Icelanders, nefnd innan félagsins sem hefur verið sett á laggirnar. Eliza Reid, félagskona FKA og forsetafrú, tekur þátt í göngunni en Eliza Reid lætur sig umræðuna um mikilvægi fjölbreytileikans varða. Hefur hún staðið framalega í að vekja athygli á mikilvægi þess að fjölga röddum við borðið.

New Icelanders

Með New Icelanders er FKA að efla tengslin, opna markvisst á samtalið svo við getum miðlað og lært af hverri annarri. Fjölga röddum við borðið til að tækla stórar áskoranir og vinna með fjölbreytileika.

Búrfellsgjá

Gangan hefst frá nýju bílastæði við Heiðmerkurveg í Garðabæ, annan enda Heiðmerkur, Hafnafjarðarmegin (sjá mynd neðst). Hundrað félagskonur mæta þangað kl. 17 stundvíslega. Göngum við með 2 m bili og gefum engan afslátt á sóttvörnum auðvitað.

Búrfellsgjá er gjá sem gengin er endilöng og við enda hennar er svo gamall gígur/eldstöð sem er um 180 m hár. Þetta er skemmtileg og auðveld ganga og oft góð sem fyrsta ganga fyrir alla fjölskylduna óháð aldri. Við göngum saman á göngustig sem er nýlegur og endurbættur og því mjög þægilegur á fótinn. Mælt er með að ganga á toppi gígsins, hringinn um hann og það er nákvæmlega það sem við ætlum að gera.

Myndband um svæðið HÉR.

Nánar um leiðina HÉR.

Gjörningur og táknrænn ,,hringur”.

Félagskonur taka þátt í gjörningi þar sem þar sem við myndum hring (a.m.k. með 2 m bili) á toppi gígsins. Við myndum hringinn og erum þannig með táknrænum hætti að sameinast og fá New Icelanders inn í keðjuna og fjölga hlekkjunum. Fréttablaðið tekur mynd af gjörningnum, það verður gert með dróna til að ná loftmynd sem verður birt á góðum stað í Fréttablaðinu næsta dag.

Búnaður!

Klæða sig eftir veðri, taka vatnsbrúsa með og vera í góðum skóm sem henta í létta göngu. Ef það verður rigning þá er hún blaut. Ef þú átt val um að mæta í flík s.s. yfirhöfn í lit þá væri frábært að velja þann kost fyrir myndatökuna. Því skærari því betra.

Dagskrárlok um klukkan 20.00.

Gerum þetta saman! Sterkari saman – ólíkar en jafn góðar.

Félagskonur geta staðfest mætingu eð að senda nafn og netfang með skráningu >>> HÉR