Ráðstefna FKA um #metoo

DSC_0044

StjornFKAStjórn FKA hefur tekið skýra afstöðu með konum sem hafa stigið fram í tengslum við #metoo byltinguna og vilja leggja sitt af mörkum til að byltingin muni skila sér í varanlegum breytingum. FKA hefur viljað leita fjölbreyttra leiða til að hafa sem mest áhrif í þessu samhengi. Eitt af því sem getur stutt við þær konur sem stigið hafa fram er að hvetja til aukinnar umræðu. Með það að markmiði að auka umræðuna í þjóðfélaginu stóð FKA fyrir glæsilegri ráðstefnu þann 7. febrúar sl.

DSC_0127Fræðslunefnd FKA sá um val á framsögumönnum og skipulag ráðstefnunnar. Hugmyndin var sú að ná fram því sem næst 360° umræðu þar sem málefnið yrði nálgast frá sem fjölbreyttustu sjónarhornum.

 

DSC_0053Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson heiðraði FKA með nærveru sinni. Hann nálgaðist umræðuefnið út frá því hvaða viðmið við viljum hafa í samskiptum kynjanna. Það er afar mikilvægt fyrir þær konur sem stigið hafa fram að forsetinn skuli leggja sig fram um að hlusta á það sem þær hafa fram að færa og hjálpa okkur til þess að vekja athygli á umræðunni.

@3Aðrir sem töluðu á ráðstefnunni voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, en hún talaði um atburði sem áttu sér stað fyrir tæpum áratug. Þá áttu sér stað atburðir sem tengjast klárlega kynbundnu ofbeldi, en samfélagið sat hjá aðgerðarlaust þó að öllum mætti vera það ljóst að atburðarrásin væri langt því frá að vera sanngjörn eða eðlileg. Gestur Pálmason talaði frá sjónarhóli karlmanna og greindi frá því hversu erfitt hefur reynst að fá karlmenn til að stíga fram og taka þátt í umræðunni. Mannauðsstjórnar WOW air og Vodafone, Jónína Guðmundsdóttir og Helen Breiðfjörð fjölluðu um hvaða áskorunum fyrirtæki standa frammi fyrir í tengslum við #metoo. Fjallað var um þær breytingar sem hafa orðið á viðbrögðum við kynferðislegri áreitni og óviðeigandi samskiptum á milli kynjanna. Svo virðist sem bæði viðmiðin hafi breyst og einnig hafa viðbrögðin við því sem er óviðeigandi breyst.

DSC_0096Ráðherra jafnréttismála, Ásmundur Einar Daðason, fjallaði um til hvaða aðgerða hefur verið gripið af hálfu ríkisins, setningu regluverks og þann samráðsvettvang sem ákveðið hefur verið að koma á fót í þeim tilgangi að taka af festu og alvöru á þessu málefni. FKA hefur m.a. tilnefnt fulltrúa í nefnd sem metur umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem og aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vegum ráðuneytis jafnréttismála. 

DSC_0099Formaður FKA fjallaði að lokum um þekktar aðferðir þöggunar sem tengjast kynbundnu ofbeldi. Þar er þekkt leið til að slökkva á umræðunni að sá sem kemst í kastljós fjölmiðla vegna óviðeigandi hegðunar hverfur af vettvangi með samningi um starfslok sem hefur í mörgum tilvikum orðið til þess að rannsókn mála fellur niður. Þetta skilur oft þolendur eftir í erfiðri stöðu þar sem ekki næst að ljúka málunum með afgerandi niðurstöðu um það hvort ásakanir voru á rökum reistar eða ekki.

DSC_0125Ráðstefnustjórinn, Hulda Ragnheiður Árnadóttir sem er framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands og nefndarkona í fræðslunefnd FKA stýrði panelumræðum í lok ráðstefnunnar. Margar spurningar bárust frá ráðstefnugestum og var m.a. velt upp þeim spurningum hvernig við ætluðum að gæta hagmuna erlendra kvenna sem ættu sér fá málsvara og ættu oft allt sitt undir þeim sem beittu þær ofbeldi. Einnig var fjallað um hvaða aðgerða fyrirtækin í landinu gætu gripið til að hafa áhrif til breyttrar menningu í samskiptum kynjanna.

Í upphafi ráðstefnunnar var lagt upp með þrjár spurningar.

•       Er hægt að setja reglur um menningu?

•       Bera konur og karlar jafna ábyrgð á að breyta menningunni?

•       Gilda önnur lögmál um samskipti kynjanna en áður?

Ekki var unnt að draga eina sameiginlega niðurstöðu út úr umræðum ráðstefnunnar, en þó var rætt um að ljóst væri að karlar yrðu að taka þátt í þeim breytingum sem framundan eru í tenglum við þetta málefni. Það var einnig mat ráðstefnuhaldara að það giltu í raun önnur lögmál en áður um samskipti kynjanna og #metoo byltingin hefði þannig ýtt af stað ákveðnum breytingum í samfélaginu þannig að framkoma sem áður var látin viðgangast væri nú talin óásættanleg.

Það var að lokum rætt að menningu yrði ekki breytt með reglusetningu, þó að breyttar verklagsreglur geti að sjálfsögðu hjálpað í aðstæðum þar sem óviðeigandi atburðir hafa þegar átt sér stað. Breytingin yrði að eiga sér stað innra með hverjum og einum einstaklingi.

Ráðstefnan endaði á því að hvatt var til þess að hver og einn ráðstefnugestur gengi út með þá trú í brjósti að þeir gætu haft raunveruleg áhrif á sitt nærumhverfi. Það myndi síðan hafa keðjuverkandi áhrif sem myndu skila okkur breyttu samfélagi. Vitnað var til orða Mahatma Gandhi, „Be the change you want to see in the world“.

Gandi