Skema á Topp 10 lista Forbes

Hér er fréttatilkynningin í fullri lengd.  
 
 
 
Skema á lista Forbes yfir 10 sprotafyrirtæki til að fylgjast með árið 2013

 
John Hall, framkvæmdastjóri Digital Talent Agents, skrifaði nýverið grein fyrir Forbes þar sem hann taldi upp þau tíu fyrirtæki af SXSW ráðstefnunni í ár sem hann telur að muni slá í gegn hjá neytendum árið 2013.
 
Eitt fyrirtækjanna á listanum er Skema, sem er framsækið íslenskt sprotafyrirtæki sem vinnur að því að uppfæra menntun í takt við tækniþróun. Fyrirtækið sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og kennslu í forritun á öllum skólastigum og hefur þróað aðferðafræði sem byggir á rannsóknum á sviði tölvunarfræði, kennslufræði og sálfræði. Skema var stofnað árið 2011 og hefur staðið fyrir námskeiðum í forritun fyrir börn á aldrinum 7-16 ára, auk þess að aðstoða grunn- og framhaldsskóla við innleiðingu forritunarkennslu í skólanámskrá. Þá hefur fyrirtækið staðið fyrir endurmenntun kennara á sviði forritunar og notkunar spjaldtölva í skólastarfi.
Nú stefnir í viðburðaríkt ár hjá Skema, en að sögn Rakelar Sölvadóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, stendur til að opna starfsstöð í Seattle í Bandaríkjunum í haust. Því er óneitanlega verðmætt fyrir þetta vaxandi sprotafyrirtæki að fá umfjöllun hjá jafn virtum og víðlesnum fjölmiðli og Forbes.