Skráning nauðsynleg – Ertu búin að skrá þig á Opnunarviðburð FKA við Búrfellsgjá á morgun?

FKA heldur áfram að styðja kvenleiðtoga í að sækja fram og sameina til aukins sýnileika og þátttöku. Það getum við til dæmis með því að reima á okkur gönguskóna.

Á morgun, fimmtudaginn 3. september 2020 kl. 17.00, göngum við Búrfellsgjánna saman til heilsueflingar og yndisauka.

Í tveggja metra fjarlægð ætlum við að hefja starfsárið, ræða saman og tengja athafnakonur úr öllum greinum atvinnulífsins. 

Á opnunarviðburðinum beinir félagið meðal annars kastljósi að New Icelanders, nefnd innan félagsins sem hefur verið sett á laggirnar. Eliza Reid, félagskona FKA og forsetafrú, tekur þátt í göngunni en Eliza Reid lætur sig umræðuna um mikilvægi fjölbreytileikans varða. Hefur hún staðið framalega í að vekja athygli á mikilvægi þess að fjölga röddum við borðið.

Búrfellsgjá

Gangan hefst frá nýju bílastæði við Heiðmerkurveg í Garðabæ, annan enda Heiðmerkur, Hafnafjarðarmegin (sjá mynd neðst). Hundrað félagskonur mæta þangað kl. 17 stundvíslega. Göngum við með 2 m bili og gefum engan afslátt á sóttvörnum auðvitað.

Búrfellsgjá er gjá sem gengin er endilöng og við enda hennar er svo gamall gígur/eldstöð sem er um 180 m hár. Þetta er skemmtileg og auðveld ganga og við göngum saman á göngustig sem er nýlegur og endurbættur og því mjög þægilegur á fótinn.

Gjörningur og táknrænn.

Gangan er táknræn, nokkurskonar gjörningur þar sem við myndum keðju, sameinaðar fyrir starfsárið, fáum New Icelanders inn í keðjuna og fjölgum hlekkjunum.

Búnaður og undirbúningur!

Klæða sig eftir veðri, taka vatnsbrúsa með og vera í góðum skóm sem henta í létta göngu (strigaskóm/gönguskóm). Vera búnar að fara á salernið og muna að ef það verður rigning þá er hún blaut. Ef þú átt val um að mæta í flík s.s. yfirhöfn í lit þá væri frábært að velja þann kost fyrir myndatökuna. Því skærari því betra.

Gúmmíhanskar, grímur og spritt á staðnum fyrir þær sem vilja. Orkustykki og drykkur fyrir ferðina og hressing eftir gönguna.

Dagskrárlok um klukkan 20.00.

Gerum þetta saman! Sterkari saman – ólíkar en jafn góðar.

Sendið nafn og netfang með skráningu á fka@fka.is