Stjórn FKA boðar til félagsfundar 9. júní nk. // Leitað til félagskvenna um hvort eigi að ganga aftur til kosninga // Skráning er fyrirfram á fundinn.

Stjórn FKA boðar til félagsfundar.

(Skráning er fyrirfram á fundinn, hlekkur sem var sendur á félagskonur í tölvupósti má einnig finna HÉR // Félagskonur verða að skrá sig fyrir klukkan 9 um morguninn þann 9. júní nk.)

– – – – O – – – –

Stjórn FKA boðar til félagsfundar.

Leitað til félagskvenna um hvort eigi að ganga aftur til kosninga.

Á aðalfundi Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, síðastliðinn miðvikudag, 19. maí, var gengið til stjórnarkjörs. Í samræmi við lög FKA og samþykkt fundarins um breytingar á boðaðri dagskrá, var kosið um formann sérstaklega og í framhaldinu aðrar stjórnarkonur, þ.á m. í varastjórn félagsins.

Til að tryggja tækifæri allra félagskvenna til að greiða atkvæði hafði stjórn FKA ákveðið að hafa rafræna kosningu, rétt eins og árið 2020.

Tæknilegir hnökrar á framkvæmd kosninganna ollu því að ekki gátu allar félagskonur mættar á fundinn sent inn atkvæði sitt. Hlaut nýr formaður kosningu og ný stjórn tók við.

Á fundinum og í kjölfar aðalfundar hafa fráfarandi ásamt núverandi stjórn sem og framkvæmdastjóra borist athugasemdir varðandi kosninguna þ.m.t. skriflega kæru. Þar er farið fram á að aðalfundur FKA verði dæmdur ógildur. Hafa þessar ábendingar verið ræddar á fundi með kjörstjórn og fundarstjóra og teknar til athugunar.

Það er einróma niðurstaða nýkjörinnar stjórnar að tryggja einhug um kjörið og leita til félagskvenna um hvort eigi að ganga aftur til kosninga. Nýkjörnir stjórnarmeðlimir og nýr formaður taka heilshugar undir það til þess að hvorki þær né félagskonur efist um umboðið sem þær hafa til að stýra félaginu.

Stjórn hefur því ákveðið að boða til félagsfundar á Zoom þann 9. júní nk. klukkan 17 þannig að félagskonur geti tekið ákvörðun um hvort boða eigi til auka aðalfundar, þar sem eitt atriði væri á dagskrá, sem er að ganga aftur til kosninga á annars vegar formanni og hins vegar stjórnarkonum. Ef félagsfundur ákveður að ganga til kosninga, hefst auka aðalfundur klukkan 17:30 eða strax í kjölfar félagsfundar, standi hann lengur en 30 mínútur.

Til þess að lágmarka líkur á að sambærilegir annmarkar komi aftur upp, munu félagskonur þurfa að skrá sig á fundinn fyrirfram. Hlekkur til skráningar er neðst í þessum pósti.

Framkvæmdastjóri og sitjandi stjórnarkonur úr stjórn 2020-2021 munu skipuleggja fundinn, ásamt kjörstjórn. Nýkjörinn formaður og nýkjörnar stjórnarkonur munu stíga til hliðar og taka þátt líkt og aðrar félagskonur.

Það er mikilvægt að tryggja einhug um kjörið, að grunnur sem stjórn byggir á sé traustur og trúverðugur og að lýðræði og jafnræði ríki meðal félagskvenna.

Með virðingu og vinsemd,
Stjórn FKA 2021-2022

Póstur með yfirlýsingu hér að ofan var sendur á félagskonur FKA, ásamt fundarboði á félagsfund FKA þann 9. júní nk. kl. 17.00. Jafnframt var það fundarboð á auka aðalfund ef félagsfundur samþykkir að endurtaka kosningu.

Dagskrá félagsfundarins 9. júní nk. kl. 17.00

 1. Fundur settur, kosning á fundarstjóra og fundarritara.
 2. Tæknimál fundarins útskýrð og efni yfirlýsingar.
 3. Kosið í gegnum Zoom um hvort eigi að endurtaka kosningu sem fór fram á aðalfundi félagsins þann 19. maí síðastliðinn.
 4. Önnur mál.
 5. Fundargerð lesin og leiðrétt.
 6. Fundi slitið.

Dagskrá auka aðalfundarins 9. júní nk kl. 17.30 ef af honum verður

 1. Fundur settur, kosning á fundarstjóra og fundarritara.
 2. Tæknimál fundarins útskýrð.
 3. Frambjóðendur til formanns kynna sig ein í einu í stafrófsröð.
 4. Kosning formanns.
 5. Frambjóðendur meðstjórnenda og varastjórnar kynna sig ein í einu í stafrófsröð.
 6. Kosning meðstjórnenda og varastjórnar.
 7. Önnur mál.
 8. Fundargerð lesin og leiðrétt.
 9. Fundi slitið.

Hvað verður kosið um ef kemur til auka aðalfundar?
Stjórn FKA er skipuð sjö konum og tveimur til vara. Kjósum okkur formann og þrjár nýjar konur í stjórn. Tvær konur til viðbótar sem fá næstflest atkvæði í stjórn verða varakonur í stjórn til eins árs.

Það fer fram skráning fyrirfram á fundinn, sjá hlekk í pósti til félagskvenna.