Við óskum félagskonunni okkkar Brynhildi Ingvarsdóttur til hamingju.
**
Á ársfundi Íslandsstofu fyrr í dag hlaut fyrirtækið UNA skincare viðurkenningu fyrir bestu markaðs- og aðgerðaáætlun í útflutningsverkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH). Einnig fór fram á fundinum útskrift fyrirtækja, sem luku ásamt UNA skincare, ÚH verkefninu sem hefur það markmið að aðstoða fyrirtæki sem stefna á alþjóðamarkað við að gera markaðs- og aðgerðaáætlun. Rúmlega 200 fyrirtæki hafa frá upphafi tekið þátt í verkefninu sem hefur verið starfrækt síðastliðin 25 ár.
Í ár luku sjö fyrirtæki við gerð áætlunarinnar sem unnin er á sjö mánaða tímabili. Íslandsstofa hittir fyrirtækin einu sinni í mánuði, tvo daga í senn og fá þau aðstoð ráðgjafa við vinnuna auk þess sem haldnir eru fyrirlestrar um þá þætti sem hafa ber í huga við markaðs- og aðgerðaáætlanagerð fyrir útflutning. Íslandsstofa hefur verið í samstarfi viðskiptafræðideild Háskóla Íslands vegna verkefnisins og fá nemar í alþjóðamarkaðssetningu tækifæri til að koma inn í verkefnin og starfa með fyrirtækjunum að greiningu á markaðstækifærum.
Verðlaunahafinn UNA skincare þróar og framleiðir vandaðar, náttúrulegar húðvörur. Húðvörurnar innihalda einstök lífvirk efni sem einangruð eru úr íslenskum sjávarþörungum. Rannsóknir hafa staðfest að vörurnar hafa mjög jákvæð áhrif á húðina. Viðfangsefni verkefnisins var útflutningur á UNA skincare húðvörum til Þýskalands. Nánar.
Fyrirtæki sem hafa tekið þátt í ÚH eru af öllum stærðum og gerðum. Þar má nefna fyrirtæki á borð við Össur og Marel sem tóku þátt í upphafi. Einnig Mentor, True North, Jarðböðin, TrackWell, Sæmark, Batteríið Arkitektar, Mannvit og Nói Síríus. Sum fyrirtækin eru ung og að stíga fyrstu skrefin á erlendan markað, önnur eru rótgróin og hafa verið í útflutningi um hríð en vilja gera vinnu sína markvissari og skilvirkari.
Samstarfsaðilar Íslandsstofu í verkefninu eru Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnulífinu og Landsbanki Íslands.
Hér er frétt Íslandsstofu um málið – SMELLTU HÉR
Marinox ehf. / Una skincare – SMELLTU HÉR
Hér má sjá lista fyrirtækja og þátttakenda sem tóku þátt í ár.