Velheppnuð FKA fjölmiðlaþjálfun 2021 í húsakynnum RÚV í Efstaleiti.

FKA og RÚV halda áfram að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum og bæta um leið aðgang fjölmiðlafólks að konum með sérþekkingu á ýmsum sviðum.

Hagnýt fjölmiðlaþjálfun fyrir konur fór fram í húsakynnum RÚV í Efstaleiti fimmtudaginn 4. febrúar 2021. Mikið gleðiefni var að fá að anda að sér liðinni tíð í Útvarpshúsinu en enginn afsláttur var gefinn af sóttvörnum og unnið út frá Dovid-spá dagsins.

Hagnýt fjölmiðlaþjálfun fyrir konur er samstarfsverkefni FKA og RÚV með aðkomu Andrésar Jónssonar almannatengils og Þórhalls Gunnarssonar fjölmiðlamanns. Þátttakendur fengu leiðsögn reynds fjölmiðlafólks og tækifæri til að spreyta sig sem viðmælendur við raunverulegar aðstæður í útvarpi og sjónvarpi.

Á annað hundrað kvenna af landinu öllu sótti um að komast að þetta árið og var það í höndum valnefndar að velja ellefu konur sem sátu námskeiðið með einum fulltrúa stjórnar FKA.

Við hvetjum áhugasama að fylgjast með að ári. Allar konur sem sóttu um er þakkaður sýndur áhugi og þátttakendum þakkað samtalið og samveran.

Þakkir til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra, Sigrúnar Hermannsdóttur viðburða- og þjónustustjóra RÚV, Huldu Geirsdóttur fjölmiðlakonu og öllum þeim sem gerðu daginn ógleymanlegan í RÚV.

Andrési almannatengli og Þórhalli fjölmiðlamanni eru sendar hugheilar kveðjur og innilegar þakkir fyrir samfylgdina. Unni Elvu stjórnarkonu þökkuð aðkoma og fyrir að leiða verkefnið þetta árið.

Takk fyrir að vera alvöru hreyfiafl. Sjáumst að ári!