Við kjósum okkur formann á aðalfund FKA. Stjórnarsæti ásamt varasætum að losna í stjórn FKA. Einnig er kallað eftir framboðum til nefndarstarfa.

Kæra félagskona!

Við kjósum okkur formann á aðalfundi FKA. Þrjú stjórnarsæti og tvö varasæti eru einnig að losna í stjórn FKA.Kallað er eftir framboðum fyrir aðalfund FKA sem verður haldinn miðvikudaginn 19. maí 2021 kl. 17.00.

Áhugasamar félagskonur um framboð til formanns eða stjórnar eru hvattar til að skoða málið, kynna sér hlutverk og störf stjórnar FKA. Hvað hefur þú fram að færa? Hefur þú leitt hugann að því? Viltu gefa kost á þér í stjórn, leggja félaginu lið og hafa áhrif á starfið?

Einnig er kallað eftir framboðum til nefndarstarfa næsta starfsár 2021/22.

Ef þú vilt starfa í nefnd, styrkja sjálfa þig og stórefla tengslanetið þitt skaltu endilega bjóða þig fram til að taka þátt í mikilvægu starfi FKA næsta vetur.Nánar um málið s.s. frest til að tilkynna framboð, kynningu á frambjóðendum o.fl. má finna hér fyrir neðan.

— — — — — — — — — — — 0 — — — — — — — — — — — —

Formannskjör hjá FKA á næsta aðalfundi.

Ert þú næsti formaður FKA?

Vilt þú gefa kost á þér í stjórn?

Hvaða konur ætlar þú að hvetja til að bjóða sig fram?

Formannskjör fer fram á næsta aðalfundi FKA sem haldinn verður 19. maí 2021. Félagskonur sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til formanns eru hvattar til þess að máta sig við hlutverkið, gildi FKA, markmið félagsins og rýna í hvað vel er gert og hvað nýr formaður gæti komið með að borðinu í takt við nýja tíma og gert framtíðina litríka og bjartari fyrir okkur öll.Formaður FKA og stjórnarkonur FKA eru boðnar og búnar til að deila reynslu með áhugasömum félagskonum og öllum velkomið að hafa samband til að máta sig við hlutverk formanns sem er bæði gefandi og mjög annasamt og krefjandi á köflum.

Hvað verður kosið um?

Stjórn FKA skal skipuð sjö konum og tveimur til vara og á aðalfundi 19. maí 2021 kjósum við okkur nýjan formann og í þrjú stjórnarsæti. Tvær konur til viðbótar verða síðan varakonur þ.e. konur sem fá næstflest atkvæði á eftir þeim sem kosnar verða inn í stjórnina verða varakonur.

Í 8. gr. félagsins „Stjórn félagsins, starfsnefndir og félagsdeildir“ segir: „Stjórnarkona getur að hámarki setið samfellt í stjórn félagsins í tvö kjörtímabil í senn. Sama regla gildir um formann félagsins sem getur lengst setið tvö kjörtímabil í senn í stjórn félagsins, hvort heldur sem stjórnarkona eða formaður.“

Hulda Ragnheiður Árnadóttir hefur staðfest að hún gefi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku og því óskum við eftir framboðum til formanns FKA fyrir 2021-2023.

Einnig hafa Áslaug Gunnlaugsdóttir og Ragnheiður Aradóttir lokið fjögurra ára stjórnarsetu í félaginu.

Rakel Lind Hauksdóttir sem kjörin var 1. varakona til eins árs tók sæti Sigríðar Hrundar Pétursdóttur um síðustu áramót. Einnig var Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir kosin á síðasta aðalfundi í sæti 2. varakonu.

Nú eru því laus þrjú stjórnarsæti, auk formanns FKA og tvö varasæti í stjórn.

Stjórnarkonur sem verða áfram í stjórn eru:

  • Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst / stofnandi og eigandi Mundo.
  • Unnur Elva Arnardóttir, forstöðumaður hjá Skeljungi.
  • Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands og stjórnarformaður Hannesarholts.

Nánar um starfsemi FKA á heimasíðu undir ,,Starfsemi”

Fyrirkomulag skráningar á aðalfund FKA verður kynnt sérstaklega á næstu vikum. Verður allt í takt við Covid-spá á þeim tíma.

Dagskrá aðalfundar var send í markpósti, sunnudaginn 22. mars 2021. Aðalfundarboðið sem var sent út má finna í markpósti sem var að berast félagskonum.

Framboðskynningar.

Konur geta boðið sig fram til stjórnarkjörs fram að og á aðalfundi.Félagskonum í stjórnarframboði og í framboði til formanns gefst tækifæri til að senda kynningu á sér til félagskvenna á lokaðri síðu félagskvenna á Facebook og sendar verða kynningar af skrifstofu FKA í gegnum póstlista félagsins á allar félagskonur og kynning fer einnig á heimasíðu félagsins.Kynningar á frambjóðendum verða sendar á póstlistann 5. maí nk. og aftur viku fyrir aðalfund 12. maí nk. Mikilvægt er að ef frambjóðendur vilja hljóta kynningu að þeir sendi framboðsgögn a.m.k. tveimur dögum fyrir boðaðar dagsetningar að öðrum kosti komast þær ekki í kynningu.

Verklag og praktísk atriði!

Framboð til stjórnar þurfa að berast á netfang fka@fka.is. Framboðinu þarf að fylgja kynning á pdf skjali ef frambjóðandi vill verða kynntur. Mikilvægt er að skjalið sem berst sé ein blaðsíða og á pdf formi og ein mynd á jpg formi til kynningar. Ekki er tekið við gögnum á annars konar formi. Mikilvægt er að í efnislínu komi skýrt fram hvað viðkomandi kona sé að bjóða sig fram til. Merkja þarf í efnislínu það sem við á:

  • „Formannsframboð FKA 2021″
  • „Stjórnarframboð FKA 2021″

Frestur til að senda kynningar sem óskað er eftir að fari með í kynningarpósti til félagskvenna þann 5. maí er til og með mánudagsins 3. maí 2021. Frestur til að senda kynningar sem óskað er eftir að fari með í kynningarpósti til félagskvenna þann 12. maí er til og með mánudagsins 10. maí 2021.

FKA kallar eftir framboðum til nefndarstarfa fyrir félagið næsta starfsár 2021-2022.

Félagskonur sem hafa áhuga á að leggja félaginu lið og efla tengslanetið geta gefið kost á sér til nefndarstarfa.Í FKA eru sex nefndir og þrjár virkar landsbyggðadeildir. Nefndir FKA starfa að verkefnum sem þeim eru falin í samráði við og á ábyrgð stjórnar félagsins, skv. 11. gr. laga félagsins.

Hlutverk nefnda er að standa fyrir viðburðum og verkefnum sem falla undir sérgreind hlutverk þeirra.

Á aðalfundi mun stjórn FKA leggja fram tillögu að skipun nefnda samkvæmt þeim framboðum sem borist hafa. Konur sem gegnt hafa nefndarstörfum og hafa hug á því að starfa áfram þurfa að endurnýja framboð sitt. Getur hver félagskona lengst átt sæti í hverri nefnd samfleytt í fjögur starfsár.

Ef þú vilt starfa í nefnd, styrkja sjálfa þig og stórefla tengslanetið þitt skaltu endilega bjóða þig fram til að taka þátt í mikilvægu starfi FKA næsta vetur.

Framboð til nefndarstarfa þarf að fylla inn í skjal á slóð sem finna má í markpóstinum sem var að berast.Frestur til að tilkynna um framboð í nefndir er vika fyrir aðalfund eða miðvikudagurinn 12. maí.

Nefndir FKA:

Alþjóðanefnd – Hlutverk er efling erlendra samskipta, Alþjóðadagur FKA og haustferðir félagsins.

Golfnefnd – Sér um árlegt golfmót félagsins og tengslamyndun.

Fræðslunefnd – Hlutverk er að vinna að fræðslumálum félagskvenna í formi verkefna og funda.

New Icelanders/Nýir Íslendingar – Hlutverk er að búa til rými fyrir konur af erlendum uppruna til að mynda gott tengslanet hér á Íslandi, deila reynslu sinni og öðlast sýnileika.

Nýsköpunarnefnd – Hlutverk er að styðja við við félagskonur í nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi.

Viðskiptanefnd – Hlutverk er að efla viðskiptatengsla og sjá um fyrirtækjaheimsóknir.

Nánari upplýsingar um hlutverk nefnda má finna á heimasíðu FKA.Hlutverk landsbyggðadeilda er að efla konur á landsbyggðinni og styrkja tengslanet nærumhverfis.

Landsbyggðadeildirnar eru:

FKA Norðurland – Kosið innan Norðurlandsnefndar. Sér um starfsemi FKA á Norðurlandi.

FKA Suðurland – Kosið innan Suðurlandsnefndar. Sér um starfsemi FKA á Suðurlandi.

FKA Vesturland – Kosið innan Vesturlandsnefndar. Sér um starfssemi félagsins á Vesturlandi.

Deildir FKA halda aðalfundi. Þær eru:

Atvinnurekendadeild FKA

FKA Framtíð

LeiðtogaAuður

Hugsaðu þetta allt yfir páskana kæra félagskona og gangi þér sem allra best.Við spyrjum þig: Ert þú næsti formaður FKA? Viltu gefa kost á þér í stjórn, leggja félaginu lið og hafa áhrif á starfið? Bjóða þig fram í nefnd?

Og eitt að lokum: Hvaða konu ætlar þú að hvetja til að bjóða sig fram?

Hugheil kveðja til þín!