Kæra félagskona! Ert þú næsti formaður FKA? Vilt þú gefa kost á þér í stjórn? Hvaða konur ætlar þú að hvetja til að bjóða sig fram? Kallað er eftir framboðum fyrir aðalfund FKA sem verður haldinn miðvikudaginn 19. maí 2021 kl. 17.00. Áhugasamar félagskonur um framboð til formanns eða stjórnar eru hvattar til að skoða málið, kynna sér hlutverk og störf stjórnar FKA. Hvað verður kosið um? Stjórn FKA er skipuð sjö konum og tveimur til vara. Á aðalfundi FKA 19. maí 2021 kjósum við okkur nýjan formann og þrjár nýjar konur í stjórn. Tvær konur til viðbótar sem fá næstflest atkvæði í stjórn verða varakonur í stjórn til eins árs. Hulda Ragnheiður Árnadóttir hefur staðfest að hún gefi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku og því óskum við eftir framboðum til formanns FKA fyrir 2021-2023. Einnig hafa Áslaug Gunnlaugsdóttir og Ragnheiður Aradóttir lokið fjögurra ára stjórnarsetu í félaginu. Rakel Lind Hauksdóttir sem kjörin var 1. varakona til eins árs tók sæti Sigríðar Hrundar Pétursdóttur um síðustu áramót. Einnig var Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir kosin á síðasta aðalfundi í sæti 2. varakonu. Nú eru því laus þrjú stjórnarsæti, auk formanns FKA og tvö varasæti í stjórn. Stjórnarkonur sem verða áfram í stjórn eru: Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst / stofnandi og eigandi Mundo. Unnur Elva Arnardóttir, forstöðumaður hjá Skeljungi. Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands og stjórnarformaður Hannesarholts. Nánar um starfsemi FKA HÉR Framboðskynningar. Konur geta boðið sig fram til stjórnarkjörs fram að og á aðalfundi. Félagskonum í stjórnarframboði og í framboði til formanns gefst tækifæri til að senda kynningu á sér til félagskvenna á lokaðri síðu félagskvenna á Facebook. Mælst er til þess að hver frambjóðandi sendi að hámarki tvisvar sinnum skilaboð til félagskvenna í gegnum lokuðu Facebook síðuna. Munu þær kynningar standa einar og sér og ekki verður boðið uppá athugasemdir við færslurnar sem konur í framboði setja inn. Sendar verða kynningar af skrifstofu FKA í gegnum póstlista félagsins á allar félagskonur og á heimasíðu félagsins. Verklag og praktísk atriði! Framboð til stjórnar þurfa að berast á netfang fka@fka.is. Framboðinu þarf að fylgja kynning á pdf skjali. Mikilvægt er að skjalið sem berst sé aðeins ein blaðsíða og á pdf formi og ein mynd á jpg formi til kynningar. Ekki er tekið við gögnum á annars konar formi. Mikilvægt er að í efnislínu komi skýrt fram hvað viðkomandi kona sé að bjóða sig fram til. Merkja þarf í efnislínu það sem við á: „Formannsframboð FKA 2021″ „Stjórnarframboð FKA 2021″ Kynningar á frambjóðendum verða sendar á póstlistann 5. maí nk. og aftur viku fyrir aðalfund 12. maí nk. Mikilvægt er að ef frambjóðendur vilja vera með í þeirri kynningu að þeir sendi framboðsgögn a.m.k. tveimur dögum fyrir boðaðar dagsetningar. Að öðrum kosti fer þeirra kynning ekki út til félagskvenna í gegnum skrifstofuna. Fyrirkomulag skráningar á aðalfund FKA verður kynnt sérstaklega á næstu vikum þegar sóttvarnareglur liggja fyrir en aðalfundurinn verður rafrænn en vonandi líka í raunheimum. Kosning á fundinum verður með rafrænum hætti. Það eykur jafnræði og þátttöku og einfaldar málið fyrir konur sem eiga ekki heimangengt. Dagskrá aðalfundar var send í markpósti, sunnudaginn 22. mars 2021. Lesa má aðalfundarboðið sem var sent út í markpósti til félagskvenna. Eigðu góðan dag! |
