Hugheil jólakveðja frá stjórn FKA og framkvæmdastjóra FKA.
„Gerum þetta eins og í fyrra!“ sagði enginn árið 2020 en þökk sé góðri veðurspá á netinu höfum við verið þar með tengslamyndun en einnig átt góðar og gefandi stundir saman þegar það hefur verið í boði þetta starfsárið.
Við höfum verið að vinna með tengslanet, hreyfiafl og sýnileika í takt við nýja tíma. Félagskonur mynduðu táknræna kveðju á opnunarviðburði í haust, við erum að telja niður í FKA Viðurkenningahátíðina með þáttaröðinni Stjórnandinn á Hringbraut og Viðurkenningarhátíðin verður sjónvarpsþáttur í janúar.
Margar sakna raunheima en netið hefur sína kosti. Við höfum allar færst upp um nokkur borð í tækninni og stækkað netið okkar með að vera í öflugra samtali en áður við félagskonur um landið allt.
Það er alltaf korter í stöðnun og bakslag ef það er ekki haldið vel á spöðunum þegar kemur að jafnréttinu á svona tímum, konur útsettari fyrir veirunni og þannig má lengi telja en eins og við vitum má finna allt litrófið í FKA og staðan mjög misjöfn eins og gengur í samfélaginu öllu.
Á starfsárinu höfum við náð að efla okkur og tileinkað okkur hæfniþætti til að ná forskoti á atvinnumarkaði á sérstökum tímum með tækni, skapandi nálgunum og vaxtarhugarfari. Á nýju ári mun reyna á úthaldið áfram en fjölmargir viðburðir eru komnir á viðburðadagatalið á heimasíðunni okkar HÉR.
Við vonum að félagskonur fjárfesti í sér með þátttöku í FKA og setji sig á dagskrá á sérstökum tímum. Þannig hefjum við árið 2021 – sterkari saman.
Það er með velvild og þakklæti sem við sendum félagskonum nær og fjær hugheila jólakveðju, Stjórn og framkvæmdastjóri FKA.
