VIÐTÖL FKA Viðurkenningarhafar 2013

Hér má sjá viðtöl við viðurkenningarhafana - SMELLTU HÉR

Það ríkti hátíðarstemmning í Ráðhúsi Reykjavíkur síðdegis í dag þar sem FKA; Félag kvenna í atvinnulífinu afhenti sínar árlegu viðurkenningar að viðstöddum fjölda þeirra karla og kvenna sem standa í framlínu íslensks  viðskipta- og atvinnulífs.

Hafdís Jónsdóttir, formaður félagsins ávarpaði gesti og bauð þá velkomna en að því búnu afhenti Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra fjórar viðurkenningar.

Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og stjórnarformaður N1, hlaut FKA viðurkenninguna 2013, Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir, eigendur hönnunarfyrirtækisins Tulipop hlutu  hvatningarviðurkenningu FKA, og Guðrún Lárusdóttir í Stálskipum Þakkarviðurkenningu FKA. VIðurkenninguna Gæfuspor FKA hlutu svo Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ). Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ, tók á móti viðurkenningunni. Gæfuspor FKA er veitt þeim sem öðrum fremur hefur virkjað kraft kvenna til stjórnarsetu eða til áhrifa í atvinnulífinu. 

**

Nánari útlistun og ítarlegri upplýsingar

FKA viðurkenninguna 2013 hlaut Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, stjórnarformaður N1, formaður Félags atvinnurekenda og forseti ESTA (European Surgical Trade Association); evrópskra samtaka dreifingarfyrirtækja á sviði hjúkrunarvara. Margrét er viðskiptafræðingur að mennt og stundaði nám við Háskóla Íslands, HÍ og CBS í Kaupmannahöfn þar sem hún lauk mastersnámi í starfsmannastjórnun. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum bæði hérlendis og erlendis; var um árabil einn af stjórnendum hjá Esso og Q8 í Danmörku og hjá Skeljungi og Austurbakka eftir að hún flutti aftur heim.
Haustið 2005 var Margréti falið að sameina 3 fyrirtæki, Austurbakka, Icepharma og Ísmed undir nafni Icepharma.  Fyrirtækin voru öll í eigu Atorku og gekk þess samruni vonum framar. Hjá Icepharma starfa nú um 80 manns og eru viðskiptavinir félagsins sjúkrahús, apótek, stórmarkaðir og íþróttaverslanir. 
Árið 2007 keyptu lykilstjórnendur fyrirtækið af Atorku og hefur reksturinn gengið vel. Því til sönnunar má nefna að 5 ár í röð fékk Icepharma viðurkenningu VR sem fyrirmyndarfyrirtæki. Undanfarin tvö ár hefur félagið einnig fengið sérstaka viðurkenningu frá Creditinfo fyrir fjárhagslegan styrk fyrirtækisins. Núverandi framkvæmdastjórn félagsins er skipuð 3 konum og 2 körlum. „Ég held ég hafi nef fyrir góðu fólki“ segir Margrét þegar hún er innt eftir því hvernig hún velji fólk til starfa hjá fyrirtækinu. „Ég hef verið ótrúlega heppin með samstarfsfólk alla tíð“ segir hún. „En ég hef líka verið óhrædd við að hleypa öðrum að, leyfa hæfileikum hvers og eins að njóta sín. Í mínum huga er það grunnurinn að því að byggja upp góða liðsheild. Ég hef þá kenningu að þegar stjórnendur fara að óttast breytingar þá eigi þeir að hætta.“

Hvatningarviðurkenningu FKA hlutu þær Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir – eigendur Tulipop.  „Við vorum að fá kennitölu og útvega okkur strikamerki.“ sögðu þær í blaðaviðtali í lok árs 2011 og nú rúmum tveimur árum síðar eru vörur þeirra seldar í hönnunarverslunum á Íslandi, í Bandaríkjunum, Frakklandi, Hollandi, Írlandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi.

Framleiðslulína þeirra hefur vakið mikla athygli; ekki hvað síst tískufrömuða víða um heim sem gjarnan tala um „fígúrur“ þeirra sem svar Íslendinga við Múmínálfunum finnsku.

Tulipop er litríkur ævintýraheimur þar sem sveppsystkinin Búi og Gló búa ásamt fjölda annarra skemmtilegra „karaktera“ sem Signý viðurkennir að eigi sér oft mennskar fyrirmyndir; sumir séu ótrúlega líkir nánum ættingjum þeirra og vinum. 

Auk þess að hanna og framleiða fjölbreytta vörulínu; skissubækur, pennaveski, diska, bolla, lyklakippur o.fl. hafa þær verið fyrirtækjum innan handar við að hanna vörur fyrir viðskiptavini sína. Nægir þar að VÍS endurskinshúfurnar, baukinn MOSA fyrir MP banka og nýlega barst þeim beiðni að hanna fígúrur á snjóbretti fyrir stóran brettaframleiðenda. 

Þakkarviðurkenningu FKA hlaut Guðrún Lárusdóttir í Stálskipum. 

Guðrún hefur rekið Stálskip í hartnær hálfa öld og er því „skipstjórinn í brúnni“ þó hún hafi aldrei farið einn einasta túr sökum sjóveiki. En reksturinn er í hennar höndum og sölumálin annast eiginmaðurinn. Þau hjónin byrjuðu með tvær hendur tómar árið 1970 og í dag selja þau vörur sínar á markaði í Japan, Bretlandi, Suður Kóreu,  Kína, Rússlandi, Bandaríkjunum og Grikklandi. 

Stálskip er á meðal 150 stærstu fyrirtækja landsins og á síðasta ári greiddi þau hæst meðallaun allra fyrirtækja á landinu samkvæmt könnun Frjálsrar verslunar.  Á þeim lista hafa þau gjarnan verið undanfarin ár. Fyrirtækið hefur til umráða 1,20 % af heildarúthlutum afla miðað við árin 2011/2012 og í dag gera þau út frystitogarann Þór HF. Áhöfn Þórs telur 26 stöðugildi en í allt starfa 35-40 menn á sjó og 3 starfsmenn í landi.
Guðrún lætur ekki bara til sín taka í fjölskyldufyrirtækinu Stálskipum heldur er hún atkvæðamikil í sinni atvinnugrein. Hún er formaður Útvegsmannafélags Hafnarfjarðar og eina konan í stjórn LÍÚ.

Gæfusporið 2012 hlutu SVÞ; Samtök verslunar og þjónustu og veitti formaður Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ viðurkenningunni viðtöku.

Gæfuspor FKA er veitt þeim sem öðrum fremur hefur virkjað kraft kvenna til stjórnarsetu eða til áhrifa í atvinnulífinu. 
Á aðalfundi SVÞ í mars s.l. voru mörkuð tímamót í sögunni þegar konur urðu í fyrsta sinn í meirihluta í stjórn aðildarfélags Samtaka atvinnulífsins.
SVÞ er eitt af 7 aðilarfélögum sem starfa innan SA – Samtaka atvinnulífsins, hefur um 23% vægi innan samtakanna og innan innan SA starfa um 50% launamanna á almennum vinnumarkaði á Íslandi.
Þetta er því ein af vörðunum sem marka tímamót í sögu SA og íslensks atvinnulífs í heild og sýnir hvernig framsýnir einstaklingar og lykilstjórnendur geta hrint hlutum í framkvæmd og beitt sér fyrir því að þeir þokist í rétta átt. 

Hér má sjá viðtöl við viðurkenningarhafana – SMELLTU HÉR