Lög FKA

Lög Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA)

 
 

I. kafli Heiti félags, heimili og markmið

1. gr. Heiti félags og heimili

Heiti félagsins er Félag kvenna í atvinnulífinu, og er það skammstafað FKA. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. grTilgangur félagsins og markmið

Tilgangur félagsins er að styrkja enn stöðu kvenna í íslensku atvinnulífi og fjölga konum í stjórnunarstöðum og í eigin rekstri. Tilgangi þessum hyggst félagið ná með því að styðja við konur í nýsköpun og öðrum atvinnurekstri, ásamt því að efla samstöðu og samstarf þeirra á meðal. 

 

II. kafli Aðild og tekjur

3. gr. Félagskonur

Félagið er opið öllum konum í eigin atvinnurekstri og öðrum sem gegna leiðtoga-, stjórnunar- og sérfræðistöðum í íslensku atvinnulífi, skrá sig í félagið og greiða félagsgjöld.  

 Halda skal félagaskrá yfir félagskonur. Hafi félagskona ekki greitt félagsgjald í eitt starfsár skal litið svo á að hún óski ekki lengur eftir aðild að félaginu og skal nafn hennar tekið út af félagaskrá.

 

4. gr. Brottvísun

Stjórn félagsins getur vikið félagskonu úr trúnaðarstöðum í félaginu hafi hún brotið lög félagsins eða með öðrum hætti sýnt af sér háttsemi sem samræmist ekki tilgangi félagsins.
Áður en tekin er ákvörðun um brottvísun skal gefa félagskonu kost á að tjá sig um hina fyrirhuguðu ákvörðun og getur félagskona krafist skriflegrar skýringar á ákvörðun stjórnar.
Félagskona getur krafist félagsfundar til að bera ákvörðun stjórnar um brottvikningu hennar undir fundinn. Þarf 2/3 atkvæða á félagsfundi þar sem slíkt mál er til meðferðar samkvæmt fundarboði til að samþykkja brottvikningu.

5. gr. Tekjur félagsins

Félagskonur greiða árgjald til félagsins sem ákveðið er á aðalfundi. Árgjaldinu er ætlað að standa undir rekstri félagsins. Aðrar tekjur félagsins eru styrkir, vaxtatekjur svo og aðrar tekjur sem kunna að verða af rekstri.

III. kafli Aðalfundir og félagsfundir

6.gr. Aðalfundur og félagsfundir

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir lok maí ár hvert. Til hans skal boðað með tryggilegum hætti, t.d. bréflega eða með tölvupósti til félagskvenna með minnst fjórtán daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef til hans er löglega boðað. Í aðalfundarboði skal gera grein fyrir dagskrá fundarins. Rétt til setu og atkvæðis á aðalfundi eiga þær félagskonur sem staðið hafa skil á félagsgjaldi yfirstandandi starfsárs.

Meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi og félagsfundi, nema annars sé getið í lögum þessum.

Stjórn getur ákveðið að aðalfundir og félagsfundir félagsins verði haldnir rafrænt, eða félagskonum verði boðin rafræn þátttaka í fundum, þ.m.t. að félagskonur geti greitt atkvæði án þess að vera á fundarstað, að því gefnu að tryggt verði að mati stjórnar að tiltækur sé nægjanlega öruggur búnaður til að félagskonur geti tekið þátt í fundarstörfum með rafrænum hætti. Stjórn skal þá ákveða hvaða kröfur verði gerðar til tæknibúnaðar til nota á aðalfundum og félagsfundum félagsins sem haldnir verða rafrænt eða rafrænnar þátttöku, þannig að m.a. verði unnt að tryggja rétt félagskvenna til að sækja fundinn, sem og staðfesta með tryggilegum hætti mætingu á fundinn og niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Í fundarboði skulu þá enn fremur koma fram upplýsingar um tæknibúnaðinn auk upplýsinga um það hvernig félagskonur geta tilkynnt um rafræna þátttöku sína og hvar þær geta nálgast upplýsingar um framkvæmd rafrænnar þátttöku í fundinum. Það að félagskona nýtir sér aðgang að tæknibúnaði til rafrænnar þátt¬töku á félagsfundi telst viðurkenning á þátttöku hennar á fundinum.

  

7.gr. Dagskrá aðalfundar 

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1.  Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2.  Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.

3.  Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár kynntur og borinn upp til samþykktar.

4.  Skýrslur starfsnefnda.

5.  Lagabreytingar ef einhverjar.

6.  Kosning formanns.

7. Kosning meðstjórnenda og varastjórnar.

8. Kosning skoðunarmanns reikninga og eins til vara.

9. Kosning um tillögur stjórnar um skipan starfsnefnda á vegum félagsins.

10. Ákvörðun félagsgjalds.

11. Önnur mál.

 

IV. kafli Stjórn félagsins starfsnefndir og félagsdeildir

8. gr. Stjórnarkjör og starfsreglur

Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi. Stjórn skal skipuð sjö konum og tveimur til vara. Hver stjórnarkona skal kjörin til tveggja ára í senn. Á hverjum aðalfundi er kosið um þrjú stjórnarsæti og tvö í varastjórn. Formannskjör fer fram annað hvert ár.

Formann skal kjósa sérstaklega en meðstjórnendur skal kjósa í einu lagi og skipta þær með sér verkum. Í varastjórn veljast til eins árs, þær tvær konur sem næst því komust að hljóta kosningu í stjórn.
Stjórnarkona getur að hámarki setið samfellt í stjórn félagsins í tvö kjörtímabil í senn. Formaður félagsins getur að hámarki gegnt formennsku í félaginu í tvö kjörtímabil í senn og að hámarki setið samfellt í stjórn félagsins í þrjú kjörtímabil, sem meðstjórnandi og formaður.
Allar félagskonur eru kjörgengar í stjórn félagsins að teknu tilliti til reglunnar um hámarkstíma fyrir samfellda setu í stjórn félagsins. Stjórnarkona getur hvenær sem er sagt starfa sínum lausum.
Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Starfsreglur stjórnar skulu teknar fyrir á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar og gerðar á þeim þær breytingar sem stjórnin ákveður. Stjórnarkonur skulu staðfesta þær starfsreglur sem stjórnin setur sér með undirritun sinni. Starfsreglur skulu birtar á heimasíðu FKA.

9. gr. Stjórn félagsins á milli aðalfunda

Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda og gætir hagsmuna þess á grundvelli laga þessara og ákvarðana aðalfundar og félagsfunda.

Stjórn félagsins getur ráðið framkvæmdastjóra til að sinna daglegum rekstri félagsins sem í þeim efnum skal fara eftir fyrirmælum stjórnar.

Stjórn félagsins tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Efframkvæmdastjóri er ráðinn skal hann annast um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.

Stjórninni er heimilt að skuldbinda félagið fjárhagslega, enda undirriti fjórar  stjórnarkonur slíkar skuldbindingar. Stjórnin veitir prókúruumboð.

Ef framkvæmdastjóri er ráðinn getur hann skuldbundið félagið í málum sem eru innan verksviðs hans samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.

  

10. gr. Stjórnarfundir

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Formaður stjórnar boðar til funda með hæfilegum fyrirvara og aldrei skemmri en eins sólarhrings fyrirvara.

Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meiri hluti stjórnarkvenna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns
(varaformanns í fjarveru formanns) úrslitum.

Fundargerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar og birtar á heimasíðu FKA.

  

11. gr. Starfsnefndir

Starfsnefndir kosnar á aðalfundi starfa að verkefnum sem þeim eru falin í samráði við og á ábyrgð stjórnar félagsins.

 

11. gr. A Félagsdeildir

Stofnun félagsdeilda í FKA er heimil að fengnu samþykki stjórnar. Beiðni um stofnun félagsdeildar skal send stjórn skriflega og skal taka beiðnina fyrir á næsta stjórnarfundi eftir að hún berst.  Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja beiðninni:

– Heiti félagsdeildar

– Tilgangur félagsdeildar

– Nöfn stofnfélaga

– Fyrirsvar með félagsdeild skal vera í höndum a.m.k. tveggja félagskvenna

– Hvernig aðild nýrra félagskvenna að félagsdeild skuli háttað

 

Til að stofna deild þarf fjöldi stofnfélaga að vera eigi færri en 25 konur eða miðast við 5% af heildarfjölda þeirra félagskvenna sem hafa greitt félagsgjöld, hvor talan sem er lægri. Félagsdeild skal halda fundi eftir því sem þurfa þykir.

Stjórn FKA er heimilt að synja umsókn félagsdeildar ef tilgangur hennar samræmist ekki tilgangi FKA.  Stjórn FKA er heimilt að leggja félagsdeild niður gerist hún eða meðlimir hennar sekir um brot á lögum félagsins eða vanrækslu á skyldum sínum.

 

V. kafli Ýmis ákvæði

12. gr. Starfs- og reikningsár

Starfsár félagsins er frá 1. júní til 31. maí ár hvert. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórnin skal hafa ársreikning endurskoðaðan af skoðunarmanni tilbúinn fyrir 15. mars. 

13. gr. Lagabreytingar

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi enda fái breytingartillagan 2/3 hluta greiddra atkvæða. Stjórn skal leitast við að virkja félagskonur til reglulegrar umræðu og endurskoðunar á lögum félagsins. Í því skyni er stjórn heimilt að boða til félagsfundar ár hvert, þar sem félagskonum gefst kostur á að yfirfara og ræða einstakar lagagreinar áður en tillögur að breytingum eru lagðar fram. Aðalfundur getur kosið sérstaka starfsnefnd skv. 11. gr. til að undirbúa þann félagsfund og vinna tillögur að lagabreytingum í samræmi við niðurstöður hans sem nefndin leggur fyrir aðalfund. Tillögur að lagabreytingum þurfa að berast stjórninni eigi síðar en 15. apríl ár hvert. Í aðalfundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar áfundinum og skal efni hennar lýst.

 

14. gr. Slit félagsins

Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr. 13. gr. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins. Óheimilt er að ákveða að eignir félagsins renni til félagskvenna.

 

Samþykkt á aðalfundi 19. maí 2021.

 
 
 —- o —- 
 
 

Lagabreytingatillögur starfsnefndar

Á síðasta aðalfundi FKA lagði stjórn til að Áslaug GunnlaugsdóttirElfur Logadóttir og Jónína Bjartmarz yrðu skipaðar í sérstaka starfsnefnd til undirbúnings félagsfundar um lagabreytingar fyrir aðalfund 2021.

Félagsfundur um lagabreytingar fyrir aðalfund 2021 var haldinn miðvikudaginn 24. mars 2021 í raunheimum og á netinu í takt við sóttvarnir. 

Lagabreytingatillögur starfsnefndar – til framlagningar á aðalfundi 2021 má finna hér HÉR  

 —- o —-