Sigrún Ragna Ólafsdóttir ,,Konan í Kauphöllinni” í forsíðuviðtali í glæsilegu FKA-blaði sem kemur út á morgun miðvikudag.

Í FKA-blaðinu er kastljósinu beint að félagskonum FKA, fjölbreyttri starfsemi félagskvenna um land allt og jafnréttispúlsinn er tekinn á stjórnendum í atvinnulífinu sem eru leiðandi á sviði jafnréttismála á Íslandi. Fyrirtæki sem eru þátttakendur í Jafnvægisvog FKA eru einnig fyrirferðarmikil í blaðinu.

Í þessu glæsilega FKA-blaði er forsíðuviðtal við Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem var um tíma eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi. Engin kona er í slíku starfi í dag og þetta er því konan með stóru ,,K-i” í Kauphöllinni.

Um er að ræða 88 blaðsíðna blað sem verður sent í pósti til allra félagskvenna á landinu og mega FKA-konur eiga von á sendingu öðru hvoru megin við komandi helgi.

„Í fyrramálið mun ég taka á móti fyrsta eintakinu úr höndum félagskonunnar Ingibjargar Steinunnar Ingjaldsdóttur, starfandi stjórnarformanns Prentmet Odda sem er Svansvottuð prentsmiðja í fremstu röð. Það verður gefandi og gleðileg byrjun á góðum degi,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður FKA.

Félag kvenna í atvinnulífinu FKA þakkar öllum félagskonum og fyrirtækjum sem hafa hjálpað okkur að láta tímaritið verða að veruleika.