Fjölmiðlaverkefnið

Markmið og tilgangur verkefnis er að auka sýnileika kvenna og fjölbreytni í fjölmiðlum.

Í febrúar 2019 var skrifað undir mikilvægan þriggja ára samning við RÚV um viðmælendaþjálfun fyrir konur. Samningurinn kveður á um að þátttaka í verkefnum á grundvelli samningsins sé ekki bundin við FKA konur, en FKA skal samkvæmt samningnum tryggja að konur úr öðrum fagsamtökum kvenna og úr háskólasamfélaginu fái tækifæri til þáttöku. Um áramót 2019/2020 var auglýst eftir þátttakendum og 120 konur úr fjölmörgum starfsgreinum sóttu um að taka þátt í verkefninu sem sett var af stað í febrúar 2020. 

Fjölmiðlaverkefni FKA hófst árið 2013, sama ár og kynjakvótalögin tóku gildi, en því er ætlað að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlum og auka um leið þátttöku þeirra til að efla  framgöngu kvenna í samfélaginu. Tilgangurinn er að tryggja fjölbreytni viðmælenda í fjölmiðlum og skapa tækifæri til að koma að mikilvægum sjónarmiðum og þekkingu allra kynja. Konur í atvinnulífinu búa yfir mikilvægri reynslu sem full ástæða er til að nýta í frétta- og þjóðfélagsumræðu. Með fjölbreyttum viðmælendahópi endurspegla fjölmiðlar samfélagið betur og þjóna um leið öllum sínum hlustendum.

Upphaflega var verkefnið til fimm ára, 2013-2017, en sá tími nægði ekki til að breyta hlutföllum í viðmælendahópi fjölmiðla með nægilega afgerandi hætti til að markmiðið næðist. Hefur því vinnunni verið haldið áfram með ýmsum hætti, m.a. með samstarfi við ýmsa fjölmiðla og fleiri aðila. Leitað hefur verið til sérfræðinga innan háskólasamfélagsins, Creditinfo og fjölmiðla um leiðir til að samræma kynjamælingar og tölfræði. Félagskonur FKA sem gefa sérstaklega kost á sér til að koma fram í fjölmiðlum eru einkenndar í félagatali á heimasíðu FKA til að auðvelda fréttamönnum og þáttastjórnendum að finna áhugaverða viðmælendur.

Yfirlit helstu viðburða og verkefna:

  • 2020: Í febrúar gafst 12 konum tækifæri til heilsdags þjálfunar í stúdíóum RÚV undir leiðsögn Þórhalls Gunnarssonar og Andrésar Jónssonar. Öðrum umsækjendum var boðið á þriggja klukkustunda námskeið undir leiðsögn Huldu Bjarnadóttur, Eddu Hermannsdóttur, Sigmundar Ernis Rúnarssonar og Gunnars Hanssonar í höfuðstöðvum Íslandsbanka. 
  • 2019: Fjölmiðladagur FKA var haldinn 21. febrúar í RÚV þar sem árangur af mælingu kynjahlutfalla í fjölmiðlum var ræddur. 
  • 2016: Málþingið ,,Spegill, spegill herm þú mér…” og fjölmiðlar hvattir til að taka þátt með því að ,,snúa kynjahlutföllunum á hvolf” þennan dag (80:20). Markmiðið var að 20. september verði alþjóðlegur ,,Womens media day” og Ísland stæði þar fyrir fyrsta deginum.
  • 2015: Námskeiðið: „Samfélagsmiðlarnir og að koma sér á framfæri í fjölmiðlum,” þjálfun fyrir FKA konur í fjölmiðlaframkomu og samskiptum við fjölmiðla.
  • 2014: Ingibjörg Þórðardóttir, þáverandi ritstjóri BBC og síðar stjórnandi CNN, var fengin til landsins til að halda erindi á fundi fjölmiðlanefndar FKA. Á þeim fundi kynnti hún verkefni BBC sem einskorðast við að þjálfa konur til að verða öflugir sérfræðingar í fjölmiðlum.
  • 2013: Fundur með ritstjórum og fréttastjórum helstu fjölmiðla á landinu. Á þeim fundi voru fyrstu niðurstöður fjölmiðlamælingar Creditinfo kynntar, en þær sýndu mjög hægfara þróun síðustu árin varðandi kynjahlutfall í viðmælendahópum ljósvakamiðla. Má segja að hlutföll hafi verið 30:70, körlum í vil.

Myndir frá fjölmiðlaþjálfun 2020

Myndir frá fjölmiðladegi FKA 2019