Fréttamolar september 2015

Kæru félagskonur,

Þá er óhætt að segja að vetrarstarf félagsins sé hafið. Hér koma nokkrir fréttamolar til að halda ykkur upplýstum. Við vonumst til að sjá ykkur sem oftast í vetur og nú er tíminn til að benda orkumiklum kvenkyns eigendum fyrirtækja eða stjórnendum í íslensku atvinnulífi, að starfsár FKA sé hafið.

 
 
 

 

Fyrstu viðburðir vetrar eru…

 
 
  Fyrsta mál á dagskrá er vinnufundur stjórnar, deilda og nefnda n.k. mánudag. Tilgangur slíks fundar er að setja hugmyndir að viðburðum/verkefnum í púkkið, samræma verklag og þétta raðirnar, til að geta boðið upp á innihaldsríkt og gefandi starfsár. Við miðum við að senda ykkur grófan ramma að viðburðardagatali ársins fyrir miðjan mánuð. Þannig ættuð þið að geta tekið daginn frá, þó við gefum okkur þann fyrirvara að það geti breyst.  
 
   
   
 

 

Móttaka hjá fjármála- og efnahagsráðherra

 
 
 
Fyrsti formlegi fundurinn á viðurðardagatalinu okkar er heimsókn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Bjarni tekur á móti okkur í ráðuneyti sínu í Arnarhvoli við Lindargötu, fimmtudaginn 17. september kl. 17:30-18:30.
 
Fyrsti fundur vetrar er jafnan hátíðlegur og fræðandi og við munum koma með uppástungur að stað til að hittast á í framhaldinu fyrir léttan snæðing og áframhaldandi samveru.
 
 
   
   
 
 

Viðskiptamóttökur hérlendis og erlendis

 
 
 
Dagana 23.-28. september fara um 60 félagskonur til Barcelona borgar í vísinda-, fræðslu- og skemmtiferð. Að venju verður boðið upp á góða blöndu af viðskiptatengdri fræðslu og tengslamyndun.
 
Þann 25. september höldum við móttöku fyrir Finnskar rekstrarkonur úr „Gaia Network“ tengslanetinu. Og þann 29. september verður móttaka fyrir indverskar athafnakonur og eru þær einnig áhugasamar um að fá viðskiptafundi með FKA konum.
 
Hafið samband ef þið hafið áhuga að tengjast og taka þátt í móttökunum.
 
 
   
   
 
 

Félagsskírteini, félagsgjaldið … og Sóleyjarnar okkar.

 
 
 
Pökkun og frágangur félagsskírteina eru í fullum gangi og verða þau send á næstu dögum. Gjaldskrá FKA tók smávægilegum breytingum fyrir haustið 2015. Stjórn ákvað að taka af skarið og bjóða félagskonum sem hafa náð 67 ára aldri 50% afslátt af félagsgjaldi. Félagskonur okkar á þeim aldri hafa mögulega selt eða eru að draga saman seglin og þrátt fyrir þær breytingar þá langar okkur að halda áframhaldandi tengslum og nýta okkur reynslu þeirra. Við neitum að sleppa þeim með öðrum orðum!
Við báðum nokkrar úr þeim hópi að gefa okkur hugmyndir að heppilegri nálgun og koma með nafn á hópinn. Það stóð ekki á svörum og var ákveðið að hópurinn yrði nefndur Sóleyjarnar. Í tengslum við þessa vinnu var var ákveðið að skerpa línurnar með gjaldskrá FKA og taka út helmingsgjöld nema fyrir Ungar athafnakonur (UAK) enn í námi og Sóleyjarnar. Ástæða þessarar breytingar er sú að gjaldskrá FKA var afar ruglingleg og bauð uppá mikið ójafnræði.
 
Eftirfarandi rammi var ákveðinn:
• Félagsgjald 19.700 kr. (Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi FKA).
• Afsláttargjald er einvörðungu fyrir UAK sem eru enn í skóla og fyrir félagskonur sem hafa náð 67 ára aldri. Miðað er við 50% afslátt af félagsgjaldi.
• Lítil fyrirtæki, frumkvöðlafyrirtæki og fyrirtæki í tímabundnum fjárhagserfiðleikum geta sótt um niðurfellingu að hluta eða afsláttargjald.
 
Þær sem hafa greitt félagsgjaldið fá nafnskírteini sín send heim og því mikilvægt að klára greiðslur fyrir settan eindaga þann 10. september n.k. Einnig er mikilvægt að muna að uppfæra upplýsingar s.s heimilisfang, símanúmer og netfang í kerfinu með reglulegum hætti.
 
 
   
   
 
 

ÚH verkefnið að fara að í gang – FKA veitir styrk

 
 
 
Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH) er útflutningsverkefni sem er sniðið að þörfum fyrirtækja sem stefna að útflutningi, eða hafa þegar tekið fyrstu skrefin í þá átt.
Auk þess að öðlast mikilvæga þekkingu á erlendri markaðsetningu njóta þátttakendur í ÚH aðstoðar sérfræðinga við mótun og gerð markaðs- og aðgerðaáætlunar fyrir sókn á erlendan markað.
 
Unnið er tvo daga í senn í hverjum mánuði yfir sjö mánaða tímabil frá október 2015 til apríl 2016. FKA hefur árlega styrkt sæti félagskonu, til móts við Íslandsstofu og hvetjum við félagskonur til að sækja um þegar við opnum fyrir umsóknir.
 
Áhugasamir geta mætt á kynningarfund í húsnæði Íslandsstofu, Sundagörðum 2 (7. hæð), miðvikudaginn 16. september kl. 8:30-10. Þátttaka hefur alltaf verið góð og mikil eftirspurn eftir hverju sæti.
 
Fjöldi þátttakenda í hverju verkefni er takmarkaður við 10 og sérstök nefnd hefur það hlutverk að velja úr umsóknum.
 
Þær félagskonur sem hlotið hafa ÚH styrk frá upphafi: • Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, Villimey • Marín Magnúsdóttir, Practical • Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, Gyðja Collection • Linda Svanbergsdóttir, Secret North • Anna María Jónsdóttir, Engifer • Guðný Reimars, EcoNord • Þórey Eva Einarsdóttir og eigendur, BirnaTrading • Þóra Þórisdóttir, Urta Islandica ehf • Bjarný Björg Arnórsdóttir, Urta og Via Health (Stevia) • Brynhildur Ingvarsdóttir, UNA Skincare
 
 
   
   
 
 

FaST 50 í fyrsta sinn á Íslandi – við leitum að tæknistelpum

 
 
 
Síðastliðin 20 ár hefur Deloitte á alþjóðavísu markvisst lagt lóð sínar á vogarskálar nýsköpunar. Kjarninn í framlagi Deloitte hefur verið Technology Fast 50 átakið sem fjölmörg aðildarfyrirtæki Deloitte keyra ár hvert. Með því er tæknifyrirtækjum skapaður sérstakur vettvangur til að vekja athygli fjárfesta, fjármögnunaraðila og annarra hagsmunaaðila vítt og breitt um heiminn á vexti og vaxtarmöguleikum sínum.
 
Nú er komið að því að draga fram þessi fyrirtæki á Íslandi og munu FKA, Samtök Iðnaðarins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands sameinast um verkefnið. Í stuttu máli felur átakið í sér árlega útgáfu lista yfir þau 50 tæknifyrirtæki sem vaxið hafa mest m.t.t. veltuaukningar á hverju fjögurra ára tímabili. Útgáfa listans mun fara fram í október ár hvert á sérstökum viðburði hjá Deloitte á Íslandi að viðstöddum fjölda aðila sem geta aðstoðað tæknifyrirtæki með einum eða öðrum hætti að ná markmiðum sínum.
 
Samhliða Fast 50 átakinu fer fram keppni um vonarstjörnur tæknifyrirtækja (e. Rising Star). Með því er skapaður vettvangur fyrir tæknifyrirtæki sem hvorki hafa náð fjögurra ára aldri né veltu sem samsvarar 800 þús. EUR til að vekja athygli á starfsemi sinni.
 
Hér eru ítarlegri upplýsingar um verkefnið, tímasetningar og framkvæmd:
 
 
  FaST 50 – upplýsingar  
   
 
 

Afrekskonur – Hefur þú sögu að segja?

 
 
 
Sýningin Afrekskonur í Ráðhúsi Reykjavíkur er samspil margra ólíkra sýninga sem hafa verið settar upp og/eða eru yfirstandandi í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Markmiðið er að sýna gestum hvað konur á Íslandi hafa áorkað í gegnum tíðina og að þeir finni fyrir kvenorku inn að beini.
 
Ásýnd kvenna: Sýningin byggist á skjölum og ljósmyndum kvenna varðveittum á Borgarskjalasafni Reykjavíkur frá árunum 1910-1920 þegar konur voru að fá kosningarétt og kjörgengi. Ásýnd kvenna er ekki ætlað að rekja sögu kvenna, heldur fremur gefa áhorfandanum tilfinningu fyrir konum og lífi þeirra á þessum tíma. Veggir úr sögu kvenna: Sýning um sögu kvennabaráttunnar á Íslandi frá Kvenréttindafélagi Íslands.
 
Sýningin verður opin í september og verða viðburðir allan mánuðinn tengdir afrekskonum. Á meðan á sýningu stendur verður haldið áfram að safna afrekssögum af konum í gegnum netfangið afrekasyning@reykjavik.is og á www.afrekskonur.is.
 
 
  Afrekskonur – heimasíða